Barnaverndarstefna Barnaheilla – Save the Children á Íslandi

um vernd barna gegn ofbeldi, vanrækslu, óöruggum aðstæðum og slæmri meðferð 

Inngangur

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa frá stofnun, árið 1989, haft barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Hafa samtökin því alla tíð unnið að vernd barna gegn ofbeldi og slæmri meðferð. Hjá alþjóðasamtökum Save the Children, sem Barnaheill eru hluti af, er í gildi Barnaverndarstefna sem miðar að því að tryggja jafna vernd barna í heiminum öllum gegn ofbeldi, vanrækslu, óöruggum aðstæðum og slæmri meðferð. Til að ná því markmiði setja öll landsfélög Save the Children sér lágmarks barnaverndastefnu eða reglur sem eru bindandi fyrir starfsfólk, stjórnarfólk, sjálfboðaliða og aðra sem eiga samstarf við Save the Children félög. Er það gert til að tryggja jafnræði barna í þeim löndum þar sem Save the Children starfa, þar sem mismunandi reglur gilda um barnavernd í hverju ríki fyrir sig. Af þessu leiðir að barnaverndarreglur Save the Children munu í einhverjum ríkjum ganga lengra en lög og reglur kveða á um og skemur en annars staðar. Barnaverndarstefnur og verklagsreglur vegna tilkynninga um barnaverndarmál annarra Save the Children félaga eru stærðarinnar vegna, víða mun flóknari og umfangsmeiri.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi skulu starfa samkvæmt stefnu þessari.


Gildissvið

1) Barnaverndarstefnan gildir fyrir og bindur starfsmenn Barnaheilla, stjórn samtakanna, sjálfboðaliða og samstarfsaðila, þ.m.t. ungmennaráð Barnaheilla. Í skjali þessu merkja orðin fulltrúi samtakanna einhvern þessara aðila.

2) Barnaverndarstefnan gildir um vernd barna sem tengjast Barnaheillum – Save the Children á Íslandi vegna starfseminnar með einum eða öðrum hætti.

3) Barnaverndarstefnan gildir um það þegar nýtt starfsfólk er ráðið til Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. (Sjá viðauka I, Starfsreglur um ráðningarferli Barnaheilla – Save the Children á Íslandi).

4) Barnaverndarstefnan gildir um viðburði sem Barnaheill – Save the Children eða fulltrúar samtakanna, skipuleggja þar sem börn eru þátttakendur. (Sjá Leiðbeinandi reglur um framkomu við börn, öryggi barna og velferð í tengslum við viðburði sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa fyrir, í viðauka II)

Yfirlýsing um vernd barna

Öll börn sem tengjast samtökunum vegna starfseminnar skulu njóta sérstakrar verndar af hálfu fulltrúa samtakanna. Ítrasta öryggi þeirra skal tryggt hverju sinni. Þau skulu aldrei sett í aðstæður sem skapa hættu á að öryggi þeirra sé ógnað, svo sem vegna ofbeldis, kynferðislegs eða líkamlegs annars konar, vegna gáleysislegrar hegðunar fulltrúa Barnaheilla, vegna umhverfisþátta eða slysahættu. Við hvers lags viðburði sem skipulagðir eru af hálfu samtakanna og sem gera ráð fyrir þátttöku barna, skal gæta að forvörnum með virkum fyrirbyggjandi aðgerðum (Sjá nánar í viðauka II.)

Allar ákvarðanir sem fulltrúar samtakanna taka sem varða börn skulu byggðar á því sem talið er barni fyrir bestu og í samræmi við aldur og þroska barns. 
Barnaheill – Save the Children á Íslandi gera ríkar kröfur til allra hlutaðeigandi að stefna þessi sé virt. Stefnan skal kynnt og yfirfarin fyrir fulltrúum samtakanna árlega. Barnaverndarstefnan skal ennfremur kynnt samstarfsaðilum Barnaheilla þegar það á við.

Siðareglur

Í viðauka III er að finna siðareglur (Code of conduct) sem eru hluti af Barnaverndarstefnu þessari og eru þær bindandi fyrir fulltrúa samtakanna.

Tilkynningarskylda

Á Íslandi gildir almennt sú regla að öllum er skylt að tilkynna til barnaverndar við tiltekin skilyrði. Stjórn og starfsfólk Barnaheilla skal þekkja þá skyldu sína vel og kynna hana öðrum sem það starfar með. Um tilkynningarskyldu til barnaverndar segir í 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

16. gr. Tilkynningarskylda almennings.

Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:

a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Þá er hverjum manni skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu, t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu, eða með því að þunguð kona er beitt ofbeldi eða ef ástæða er til að ætla að þunguð kona sé beitt ofbeldi, eða um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarnefnd eigi að láta sig varða.

17. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.

Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum barna eða þungaðra kvenna og verður var við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum, náms- og starfsráðgjöfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.

Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. 

Viðauki I

Starfsreglur um ráðningarferli Barnaheilla – Save the Children á Íslandi 
Við ráðningu nýs starfsfólks til Barnaheilla – Save the Children á Íslandi skulu eftirfarandi reglur gilda:

1) Nýjum starfsmanni skal kynnt Barnaverndarstefna Barnaheilla – Save the Children á Íslandi áður en skrifað er undir ráðningarsamning. Í ráðningarsamningi skal geta þess að með undirritun sinni gangist starfsmaður undir Barnaverndarstefnu Barnaheilla sem honum hafi verið kynnt og hann lesið.

2) Við ráðningu til starfa hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi skal ávallt liggja fyrir sakavottorð og upplýsingar úr sakaskrá um það hvort umsækjandi eða hinn nýi starfsmaður, hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Óheimilt er að ráða til starfa einstakling sem hlotið hefur refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og eðlis brotsins.

Viðauki II  

Leiðbeinandi reglur um framkomu við börn, öryggi barna og velferð í tengslum við viðburði sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa fyrir 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Starfsfólk Barnaheilla skal koma fram við börn af virðingu, kurteisi og hlýju. 

Við undirbúning samtakanna á og við framkvæmd hvers konar viðburða sem varða börn með einum eða öðrum hætti skal sjónarmiðið um það sem barni er fyrir bestu vera í forgrunni við allar ákvarðanir. 

Við viðburði þá sem samtökin standa fyrir og tengjast börnum á einhvern hátt, svo sem með þátttöku þeirra skulu samtökin tryggja ítrasta öryggi barna með því að gæta fyllstu varúðar og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu eftir bestu mögulegu þekkingu á hverjum tíma. 

Starfsfólk Barnaheilla skal leitast við að fá leyfi barna til myndatöku á viðburðum. Á viðburðum eða fyrir viðburði skal upplýsa að myndir sem teknar eru muni hugsanlega verða notaðar fyrir kynningar á samtökunum. Börnum og foreldrum skal gefast kostur á að synja um notkun mynda af þeim. 
Mikilvægt er að starfsmenn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og aðrir sem eru í sambandi við börn fyrir hönd samtakanna: 
Séu á verði gagnvart áhættu, skipuleggi vinnustað, umhverfi og vinnutilhögun til að draga úr áhættu. 
Séu sýnilegir þegar þeir vinna með börnum.

Tryggi að samskipti séu opin svo að hægt sé að ræða og bregðast við málum sem upp koma. 
Átti sig á ábyrgð sinni svo að tekið sé á og brugðist við slæmum vinnubrögðum og hugsanlegri misbeitingu eða óviðeigandi hegðun starfsfólks eða annarra sem tengjast samtökunum.

Tali við börn um tengsl þeirra við starfsfólk eða aðra og hvetji þau til að ræða hvers kyns áhyggjur sínar.

Valdefli börn – ræði við þau um réttindi þeirra, hvað er viðeigandi og óviðeigandi og hvað þau geti gert ef vandamál rís.

Almennt er óviðeigandi að starfsmenn samtakanna eða aðrir á þeirra vegum séu einir með barni sem aðeins tengist þeim í gegnum starf þeirra eða samtakanna.

Ef slys verða á barni eða börnum, eða ef upp kemur ágreiningur eða vandi sem leysa þarf úr og tengjast börnum sem sækja eða taka þátt í viðburðum samtakanna, er starfsfólki skylt að upplýsa foreldra eða forsjárfólk og eiga góð samskipti við þau um lausn og velferð barnsins.

Viðauki III – Siðareglur (Code of Conduct)


Eftirfarandi reglur innihalda lágmarkskröfur til starfsfólks, stjórnar, sjálfboðaliða og annarra sem koma fram fyrir hönd Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

1. Starfsfólk og aðrir mega aldrei: a. Lemja, slá eða á annan hátt beita líkamsmeiðingum gagnvart barni. b. Eiga kynferðislegt samneyti eða samband við nokkurn yngri en 18 ára. Það telst ekki vera réttlæting þó aldur hafi verið dulinn. c. Þróa samband við börn sem gætu talist fela í sér misbeitingu eða svívirðingu. d. Hegða sér á svívirðilegan hátt eða þannig að barni sé stefnt í hættu. e. Nota orðfæri, setja fram óviðeigandi tillögur eða bjóða óviðeigandi aðstoð, móðgandi eða meiðandi. f. Hegða sér líkamlega á óviðeigandi hátt eða kynferðislega ögrandi. g. Leyfa barni/börnum að gista heima hjá sér án eftirlits. h. Sofa í sama herbergi eða rúmi og barn sem unnið er með. i. Framkvæma hluti fyrir börn eða aðstoða með persónulegar þarfir sem þau geta sjálf gert. j. Láta óátalda eða taka þátt í hegðun barna sem er ólögleg, óörugg eða meiðandi. k. Koma fram við börn á niðurlægjandi hátt eða gera lítið úr börnum eða lítillækka, eða á annan hátt beita þau andlegu ofbeldi. l. Mismuna, sýna óréttláta mismunandi meðferð eða viðmót, eða á óréttlátan hátt hampa einu barni fram yfir annað. 
Þessi listi er ekki tæmandi. Meginreglan er sú að fulltrúar samtakanna skuli forðast aðferðir eða hegðun sem gefa til kynna slæmar starfsaðferðir eða málsmeðferð eða vera hugsanlega meiðandi.

2. Það er mikilvægt starfsfólki og öðrum sem eiga samskipti við eða starfa í nærumhverfi barns að: a. Vera vakandi yfir aðstæðum sem geta verið áhættusamar og bregðast við með því að koma í veg fyrir hættu. b. Skipuleggja vinnu sína og vinnustað á þann hátt að áhætta sé lágmörkuð. c. Vera sýnileg við störf sín með börnum, eins og mögulegt er. d. Tryggja andrúmsloft þar sem auðvelt er að tjá áhyggjur og tilfinningar um hvaðeina sem kann að brenna á börnum og öðrum. e. Tryggja að á meðal starfsfólks ríki ábyrgðartilfinning svo á það megi reiða að ekki verði þagað yfir bágri framkvæmd eða slæmum starfsaðferðum. f. Ræða við börn um samskipti þeirra við starfsfólkið eða aðra og hvetja þau til að tjá sig um hvaðeina sem þau hafa áhyggjur af eða líður illa vegna. g. Styrkja og valdefla börn, ræða um réttindi þeirra við þau, hvað sé í lagi og hvað ekki, og hvað þau geta gert ef þau eru í vandræðum. h. Gera háar kröfur til sín persónulega í daglegu lífi og í tengslum við starf sitt. i. Virða réttindi barna og koma fram við þau af réttlæti, heiðarleika og af virðingu og reisn.

3. Almennt er óviðeigandi að: 
a. Eyða löngum tíma aleinn með barni fjarri öðrum. 
b. Fara með börn á heimili sitt, sérstaklega þar sem þau verða ein með þér. 
c. Koma sér í aðstæður sem gefa tilefni til grunsemda um misferli.