Barnaheill – Save the Children hafa sett upp Barnvæn svæði á átaka- og hamfarasvæðum víða um heim. Tilgangur Barnvænna svæða er að skapa umhverfi þar sem börn geta komið saman til að leika sér og tekið þátt í starfsemi sem er fræðandi og þau hafa tækifæri til þess að efla félags- og tilfinningalega færni. Á Barnvænum svæðum er lögð áhersla á valdeflingu barna og er þeim kennt hvert skuli leita þegar þau þurfa á aðstoð að halda.

Barnvæn svæði eru eitt af lykilverkefnum Barnaheilla sem stuðla meðal annars að því að vernda börn sem búa á átaka- og hamfarasvæðum fyrir því að verða fyrir líkamlegum skaða og sálrænum áföllum. Einnig er markmiðið að aðstoða börn við áframhaldandi nám og þroska, á meðan og strax á eftir að hættuástand hefur skapast.

Barnvæn svæði er umhverfi sem er undir eftirliti starfsfólks Barnaheilla sem hefur fengið þjálfun í að vinna með börnum og geta foreldrar og forráðamenn skilið börn sín þar eftir á meðan þau sækja vatn og fæði, endurbyggja heimili eða leita að nýjum leiðum til að afla tekna. Einnig fá foreldrar og forráðamenn tækifæri til þess að vera virkir þátttakendur í starfssemi Barnvænna svæða, deila upplýsingum, fá ráð og leiðbeiningar og aðstoð við að byggja upp sjálfstraust og hæfni til þess að vernda börn sín og veita þeim viðeigandi umönnun.

Á Barnvænum svæðum er unnið að því að draga úr þeim afleiðingum sem börn orðið fyrir vegna hættuástands. Einnig er lögð áhersla á að vitsmunalegur þroski barna haldi áfram að þróast og þau fái tækifæri til þess að læra á mismunandi stigum. Í mörgum tilvikum geta Barnvæn svæði hjálpað til við að lágmarka skaðann af því sem truflun á hefðbundinni skólagöngu getur valdið. Með Barnvænum svæðum er lögð áhersla á að börn séu efld til þess að taka eigin ákvarðanir sem eru heilbrigðar og jákvæðar og ekki eigi að leggja óraunhæfa ábyrgð á þeirra herðar. Á Barnvænum svæðum geta börn fengið aðstoð við að upplifa öryggi og byggja upp sjálfstraust sitt.


Tvö megin markmið Barnvænna svæða eru:

1. Að veita börnum tækfæri til þess að þroskast, læra, leika og byggja/styrkja seiglu eftir neyðarástand og eða meðan langvarandi neyðarástand á sér stað.

2. Að koma auga á og finna leiðir til að bregðast við sérstökum ógnum sem steðja að öllum börnum og eða tilteknum hópi barna, líkt og þau börn sem eru í sérlega viðkvæmri stöðu eftir neyðarástand eða meðan langvarandi neyðarástand á sér stað.


Daryna*, fjögurra ára flúði heimili sitt í Úkraínu, yfir til Rúmeníu ásamt móður sinni og Danilo*, tveggja ára bróður sínum. Pabbi hennar varð eftir í Úkraínu til að verjast innrás Rússa. Á landamærunum tók starfsfólk Barnaheilla á móti Darynu og fjölskyldu hennar og fengu þau skjól í flóttamannabúðum sem samtökin höfðu sett upp við landamærin. Í flóttamanna búðunum má finna Barnvænt svæði þar sem systkinin geta leikið í öruggu umhverfi. 

*Nöfnum hafa verið breytt

Barnaheill – Save the Children reka Barnvæn svæði víða um Jemen. Þar dvelja börn á öruggu svæði, frá átökum og hungri sem hafa geisað í landinu undafarin ár. Barnvænu svæðin eru opin alla daga vikunnar og þar fá börn að leika sér og læra. Þau geta stundað áhugamál sín, lært hárgreiðslu, stundað saumaskap og margt fleira. Starfsfólk Barnaheilla á svæðinu tryggir öruggt umhverfi og veitir áfalla- og sálræna aðstoð fyrir börn sem þurfa á því að halda.

Mariam, til vinstri, fæddist í Úkraínu og bjó hjá fósturfjölskyldu þar í landi þangað til hann var ættleiddur til danskrar fjölskyldu þegar hann var 16 ára. Þegar stríðið í Úkraínu braust út fór hann til Rúmeníu þar sem hann starfar í einu af Barnvænu svæðum Barnaheilla við landamæri Úkraínu. Þannig fannst honum hann geta komið að gagni þar sem hann talar reiprennandi úkraínsku.