Barnaheill – Save the Children á Íslandi voru stofnuð árið 1989 á degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október. Þau eru hluti af Save the Children International, stærstu frjálsu alþjóðasamtökunum sem berjast fyrir réttindum og velferð barna. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er leiðarljós samtakanna sem Eglantyne Jebb stofnaði árið 1919. Yfirlýsing hennar um réttindi barna frá árinu 1923, varð síðar grunnurinn að Barnasáttmálanum en megin inntak hans er að veita börnum réttindi, grið, tækifæri og áhrifamátt.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa frá stofnun lagt áherslu á starf innanlands. Helstu áherslur eru á að standa vörð um réttindi barna, baráttu gegn ofbeldi á börnum, heilbrigðismál og að rödd barna heyrist betur í íslensku samfélagi. Í erlendum verkefnum eru helstu áherslur á grunnmenntun barna, vernd barna gegn ofbeldi og heilbrigðismál í gegnum neyðaraðstoð. Samkvæmt 28. grein barnasáttmálans eiga öll börn rétt á endurgjaldslausri grunnmenntun, í 19. greininni er kveðið á um rétt barna á vernd gegn líkamlegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi sem og gegn vanrækslu og samkvæmt 24. grein sáttmálans eiga öll börn rétt á heilsugæslu.

Allt starf Barnaheilla – Save the Children á Íslandi byggist á fjárframlögum frá einstaklingum, ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Félagið aflar einnig fjár með ýmsu móti, meðal annars með félagsgjöldum Heillavina, fjárframlögum og fjáröflunum á borð við JólapeysunaÚt að borða fyrir börnin og með útgáfu minningar- og jólakorta.

Erlent samstarf


Barnaheill – Save the Children á Íslandi vinna náið með alþjóðasamtökunum Save the Children International um mótun stefnu og starfshátta. Starfsmenn samtakanna eru í miklum samskiptum við starfsmenn alþjóðaskrifstofu, sem staðsett er í London. Starfsmenn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi eru einnig í miklum samskiptum við þá sem stýra verkefnum, sem samtökin á Íslandi styðja. Árlega er haldinn fundur með forsvarsmönnum landsfélaganna 29 til að móta stefnu og samræma aðgerðir. 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru í samstarfi við Evrópusamtök Barnaheilla – Save the Children en aðild að þeim eiga einnig systursamtökin í Bretlandi, Danmörku, Finnlandi og Hollandi,á Ítalíu, í Litháen, Noregi, Rúmeníu, á Spáni og í Svíþjóð. Markmið samstarfsins er m.a. að hafa áhrif á löggjöf og stefnu Evrópusambandsins og Evrópuráðsins um málefni er varða réttindi og velferð barna. Evrópusamtökin vinna að vernd barna gegn ofbeldi, málefnum vegalausra barna, hælisleitenda og barna sem eru fórnarlömb mansals. Þau hafa meðal annars beitt sér fyrir því að sett verði lög í aðildarríkjum ESB og EES um að bannað sé að beita börn líkamlegum refsingum. Einnig er lögð áhersla á að sett verði sérstök viðmið um börn, sem eru fórnarlömb mansals og að réttur barna og sérstaða sé tryggð í samningum Evrópusambandsins og á EES svæðinu.

Vefsíða alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children