371 barn hefur látið lífið vegna apabólu í Kongó

Neyð hefur verið lýst yfir vegna útbreiðslu apabólunnar í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Alls hafa 15.500 tilfelli apabólu verið tilkynnt á þessu ári í landinu en nýtt afbrigði veirunnar leggst sérstaklega illa á börn. Nýjustu gögn sýna að 70% tilfella í Kongó finnast hjá börnum undir 15 ára og 39% hjá börnum undir 5 ára. Börn eru fjórum sinnum líklegri til þess að deyja úr apabólunni en fullorðnir en 540 hafa látið lífið það sem af er ári í Kongó, þar af 371 barn.
Barnaheill á Íslandi eru með þróunarverkefni í Goma í austurhluta Kongó þar sem útbreiðslan hefur verið hvað mest. Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna hjá Barnaheillum, fór til Goma í vor að skoða starf Barnaheilla sem miðar að því að aðstoða götubörn, en 20.000 börn búa á götunni í Goma.

Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna, heimsótti Lýðstjórnarlýðveldið Kongó í vor.

,,Börn sem búa á götunni og hafa takmarkaðan aðgang að hreinu vatni og hreinlæti eru í mikilli smithættu. Veik börn sem búa á götunni hafa engin bjargráð en sjúkrahús í Goma eru yfirfull og hefur veikum börnum verið vísað frá. Þetta er skelfilegt ástand,” segir Kolbrún.

Í austur-Kongó, vinna Barnaheill – Save the Children hörðum höndum að því að bregðast við faraldrinum. 

,,Við útvegum vatn, hreinlætisvörur og heilbrigðisþjónustu. Við þjálfum einnig fagfólk í að bera kennsl á og tilkynna grun um smit,” segir Kolbrún.

Faraldurinn er enn önnur áskorun sem íbúar í austur-Kongó glíma við, en stríð hefur geisað í landinu í um þrjá áratugi. Mikil mannúðarkrísa er í landinu og um 7 milljónir manns er á flótta innan eigin landamæra, sem er næst mesti fólksflótti í heiminum í dag.