Lýðstjórnarlýðveldið Kongó er staðsett í miðri Afríku. Þar búa um 113 milljónir en 25 milljónir manna eru í brýnni neyð fyrir mannúðaraðstoð. Stríð hefur geisað í um þrjá árarugi í austanverðu landinu sem hefur leitt af sér eina stærstu flóttamannakrísu í heiminum. Í dag er meira en 7 milljón manns á flótta innan eigin landamæra.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa starfað í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó frá árinu 2022. Samtökin eru með starfrækt þróunarverkefni í bænum Goma í Norður-Kivu og mannúðarverkefni í Uvira, Suður-Kivu. Bæði verkefnin eru staðsett í austanverðu landinu þar sem mikil átök eru.
Þróunarverkefni Barnaheilla í Goma
Barnaheill – Save the Children á Íslandi hófu götubarnaverkefni í bænum Goma í Norður-Kivu héraði í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó árið 2023. Verkefnið miðar að því að vernda börn sem búa á götunni og tryggja framtíð þeirra, en um 20.000 börn búa á götunni í Goma.
Starf Barnaheilla er margþætt. Fyrst þá tryggjum við götubörnum öruggt húsaskjól með því að sameina þau fjölskyldum sínum. Við veitum börnunum sálfræðiaðstoð og aðstoðum þau við að hefja nám. Yngri börnin hefja hefðbundið nám á meðan eldri börnin hafa tök á að hefja verklegt nám í smíði, bifvélavirkjun eða saumaskap. Verkefnið miðar vel og hefur fjöldi barna útskrifast úr verklegu námi. Þau starfa við þá iðngrein sem þau menntuðu sig í, en meðfram námi fengu þau námskeið í fjármálalæsi. Mörg þeirra hafa stofnað sitt eigið fyrirtæki og afla nú tekna.
Mannúðarverkefni Barnaheilla í Uvira
Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa starfað í Suður-Kivu héraði í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó frá árinu 2022 með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu.
Verkefni Barnaheilla miðar að því að vernda börn gegn ofbeldi á átakasvæðum. Í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó er ein mesta mannúðarkrísa í heiminum og reka Barnaheill fjögur Barnvæn svæði þar sem börn geta leitað í öruggt umhverfi frá ofbeldi. Verkefninu er ætlað að ná til 10.470 barna yfir þriggja ára tímabil. Sérstaklega er leitast eftir því að ná til viðkvæmra barna, þ.m.t. barna sem áður tengdust vopnuðum hópum, fylgdarlausum börnum, börnum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og vanrækslu.
Allt starfsfólk sem vinnur að verkefni Barnaheilla í Suður-Kivu er þjálfað í að þekkja og bregðast við ofbeldi, með áherslu á kynferðisofbeldi.
Svona getur þú hjálpað börnum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó
Hér er hægt að styðja við verkefni Barnaheilla. Hjálpumst að og verndum börn í Kongó og um allan heim.
Heillavinir eru mánaðarlegir styrktaraðilar okkar og taka á þann hátt þátt í forvarnastarfi okkar gegn hverskyns ofbeldi á börnum.