Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa veitt þróunar- og neyðaraðstoð  í rúmlega tvo áratugi, meðal annars í Afganistan, Kambódíu, Úganda, Indónesíu, Haítí, Pakistan, Japan, Nepal, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Sýrlandi, Jemen, Síerra Leóne og Líberíu. 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem eru stærstu alþjóðlegu frjálsu félagasamtök sem starfa í þágu barna í heiminum. Alþjóðasamtökin voru stofnuð árið 1919 og vinna nú að verkefnum í um 120 löndum. Á síðustu rúmlega 100 árum hafa alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children breytt lífi yfir 1 milljarðs barna.

Alþjóðastarf Barnaheilla skiptist annars vegar í þróunaraðstoð og hins vegar neyðaraðstoð. Neyðaraðstoð Barnaheilla snýst að mestu leyti að viðbrögðum við neyð í kjölfar náttúruhamfara eða hamfara af mannavöldum. Með þróunaraðstoð veita Barnaheill aðstoð til fátækustu ríkja heims þar sem er lögð áhersla á almenna velferð á grundvelli mannréttinda.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi vinna náið með alþjóðasamtökunum Barnaheilla – Save the Children um mótun stefnu og starfshátta. Starfsmenn samtakanna eru í miklum samskiptum við starfsmenn alþjóðaskrifstofunnar, sem staðsett er í London. Einnig vinna Barnaheill náið með staðbundnum skrifstofum í þeim löndum sem samtökin veita aðstoð í.

Hér að neðan má lesa nánar um þau alþjóðlegu verkefni sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi starfa að í dag. Barnaheill eru með þróunaraðstoð í Síerra Leóne, Líberíu og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og neyðaraðstoð í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Einnig veita Barnaheill fjármagn til Viðbragðssjóðs alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children.