Við segjum öll NEI

Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, flutti ræðu á samstöðufundi sem blásið var til í gær, þriðjudaginn 27. ágúst, fyrir Yazan Tamimi. Yazan er 11 ára fatlaður drengur sem fyrirhugað er að vísa úr landi.

Fjölskylda Yazans er frá Hebron á Vesturbakkanum í Palestínu og flúði þaðan vegna versnandi ástands í landinu. Vegna verkfallsaðgerða á Keflavíkurflugvelli þurfti fjölskyldan að millilenda á Spáni, í kjölfar þess á nú að vísa þeim aftur til Spánar á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, þrátt fyrir að stefna þeirra hafi frá upphafi verið að setjast að á Íslandi.

Ræðu Tótlu má lesa hér neðar.

Elsku Yazan og vinir, 

NEI!   

Ég segi NEI því hvert erum við komin, þegar það telst eðlilegt að senda 11 ára fárveikt og fatlað barn frá stríðshrjáðu svæði, úr landi og í ótryggar aðstæður? 

NEI! 

Tilfinningin sem lætur okkur mæta hér í dag er sú að það er ALLT rangt við það senda þennan strák frá okkur og við skulum ekki draga neina dul á að fari hann héðan þá erum við að senda hann í aðstæður sem eru með öllu ÓBOÐLEGAR!  

Ætlum við að gera það?  

Svarið í mínum huga er alla vega einfalt: NEI! 

Það er ein meginregla í barnarétti sem trompar allt annað og hún er undurfögur. Ég ætla að fara með hana hér í dag einfaldlega í þeirri von að við öll sem hér stöndum sameinuð munum að hafa hana alltaf í heiðri.  

Reglan er þessi: Þegar teknar eru ákvarðanir er varða börn, skulu hagsmunir barnsins ÁVALLT ráða för. 

Með öðrum orðum þá BER okkur fullorðna fólkinu (alltaf) að gera það sem er BARNI fyrir BESTU! Hver gæti mögulega efast um það að það sé barninu Yazan fyrir bestu að fá að vera hér áfram? Hér þar sem hann fær viðeigandi aðstoð og heilbrigðisþjónustu.  

Hér þar sem hann á vini og þar sem hann hefur LOKSINS fengið tækifæri til að tengjast sínum jafnöldrum á jafnréttisgrundvelli. Þar sem hann fær loksins að ferðast frjáls eftir bestu getu.  

Við segjum öll NEI! 

Við gerum það því við höfnum því að ein manneskja sé minna virði en aðrar – einungis vegna þess að hún fæddist annars staðar. Ég á bláan passa en hans er í öðrum lit og þess vegna á hann að fara. Burt úr örygginu og út í óvissuna.    

Svarið fyrir fólk með samkennd sem skilur að við erum öll tengd þessari ömurlegu niðurstöðu getur aldrei verið annað en NEI.  

Því bið ég ykkur hér sem standið á þessum stað á þessari stundu að hrópa með mér okkar ákall gagnvart þessari brottvísun sem er einfaldlega NEI. 

(Einn tveir og: NEI!!!!) 

Ef af þessum brottflutningi verður erum við að tala um að Ísland sé að brjóta gegn þeim alþjóðlegu sáttmálum sem við státum okkur af að hafa fullgilt og lögfest. 

Þessi aðgerð er ekki aðeins í hróplegu misræmi við Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna, sem er sá alþjóðlegi mannréttindasáttmáli sem hefur verið fullgiltur af flestum þjóðum heims – heldur er þessi fyrirhugaða brottvísun einnig í forkastanlegu ósamræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.  

Hér stöndum við saman í dag því við mótmælum þeirri grófu mismunun sem felst í að senda fatlað palestínskt barn frá Íslandi. Læknarnir hans og aðrir sérfræðingar hafa ítrekað bent á að það geti verið lífshættulegt fyrir hann að fara héðan. Úr skjóli og í hættu. 

 Þetta er ekki flókið og því síður óskýrt.    

Hver er ástæðan fyrir því að stjórnvöld eru að gera allt sem þau geta til að brottvísa fötluðu barni frá Palestínu frá landi?  

Eru þau að leggja áherslu á að vera fordæmisgefandi í stefnu sinni í útlendingamálum? Ætla þau að setja líf ungs drengs í hættu til að sýna að þau ætli aldrei að gefa afslátt í málaflokknum? Til að kenna okkur að ef hann á ekki möguleika þá á það enginn?  

Ég óttast að Yazan eigi að vera fórnarkostnaður yfirvalda hér á landi.  Svo þau geti hrakið í burtu þá meintu ógn sem steðjar að íslensku samfélagi vegna fólks sem flýr til að bjarga lífi sínu.  

Staðreyndin er hinsvegar sú að við erum ansi mörg sem erum ekki hrædd við að sýna samstöðu með fólkinu á Gaza sem sætir þjóðarmorði um þessar mundir.  

Það er ekki margt sem við getum gert til að sýna þessu samstöðu, en eitt af því er fjandakornið það að gera allt sem í okkar valdi stendur til að slá skjaldborg um þennan saklausa strák sem hefur aðlagast hér á stuttum tíma og þráir það eitt að lifa í friði og ró til jafns við önnur börn á þessu landi.  

Það kann að vera að við getum ekki bjargað öllum – en hingað er Yazan kominn og hér á hann að vera. 

Ætlum við að horfa upp á það að lífi hans umturnað í annað sinn á stuttum tíma með því að henda honum héðan burt, einungis vegna þess að einhverjar reglugerðir heimila okkur það – eða ætlum við að standa í lappirnar og verja þetta barn – því hans líf er jafn mikilvægt og líf allra þeirra barna sem við elskum hér á Íslandi.  

Þegar það kemur að fyrirhugaðri brottvísun Yazan þá trúi ég því að við stöndum hér saman og segjum einfaldlega NEI! 

Má ég heyra í ykkur? EINN, TVEIR OG NEI! 

Takk fyrir