Banna barnahjónabönd í Síerra Leóne

Barnaheill – Save the Children í Síerra Leóne og stúlkur í landinu hafa staðið fyrir herferð til að þrýsta á stjórnvöld að lögfesta bann við barnahjónaböndum og nú hefur frumvarp þess efnis verið samþykkt. Í Síerra Leóne er ein hæsta tíðni barnahjónabanda í heiminum þar sem 40% stúlkna undir 18 ára hafa verið neyddar í hjónaband.

Með samþykkt á frumvarpinu er refsivert fyrir fullorðinn einstakling að ganga í hjónaband eða vera í sambandi með barni undir 18 ára aldri. Með nýjum lögum opnast tækifæri fyrir stúlkur til að mennta sig. Einnig munu ný lög leiða til þess að tíðni stúlkna sem eignast ungar barn lækki, en um þriðjungur stúlkna þar í landi verða barnshafandi fyrir 18 ára aldur.

Þetta er söguleg stund og mikilvægt afrek fyrir börn víðsvegar um landið sem hafa barist fyrir réttindum sínum,” segir Patrick Analo, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children í Síerra Leóne.
,,Stúlkur sem eru giftar ungar eru ekki aðeins rændar bernsku sinni heldur einnig framtíð sinni. Þær eru sviptartækifærum til að læra, vaxa, leika og þroskast og útilokaðar frá menntun og vinnu, sem hefur áhrif á fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild sinni.”

Hin 15 ára Kpemeh er ein af mörgum stúlkum sem átti að ganga í hjónaband fyrr á þessu ári en 19 ára frænka hennar, sem tók þátt í herferðinni, greip inn í og var hætt við brúðkaupið. ,,Ég snéri aftur í skóla eftir að frænka mín náði að stoppa brúðkaupið af . Ég er henni ævinlega þakklát. Nú hef ég fengið þjálfun hjá Barnaheillum og er orðin talsmaður barna í mínu samfélagi,” sagði Kpemeh.

„Þetta er mikill sigur fyrir tæpar fjórar milljónir barna í Síerra Leóne. Barnaheill – Save the Children á Íslandi fagna nýjum lögum í landinu en við vinnum í tíu þorpum í Pujehun héraði í Síerra Leóne að vernd gegn ofbeldi á börnum, sér í lagi kynbundnu- og kynferðisofbeldi,“ segir Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna hjá Barnaheillum.

Sjá nánar um verkefefni Barnaheilla í Síerra Leóne hér.