Símalaus samvera – hvatningarátak Barnaheilla, Símans og Símaklefans
Barnaheill, Símaklefinn og Síminn hafa tekið höndum saman í að hvetja til ábyrgrar símanotkunar og hvetja til símalausrar samveru. Hvatningarátakinu er ýtt úr vör í ljósi þess að rannsóknir sýna að skipulögð skjáhvíld geti eflt lífsgæði og skapandi hugsun barna.
Næstkomandi sunnudag 17. mars hefst fjögurra sunnudaga hvatningarátak þar sem að fjölskyldur eru hvattar til að taka sér meðvitað símafrí, svo sem á matmálstíma eða við heimalærdóm og jafnvel halda spilakvöld án símans.
Til þess að einfalda fjölskyldum verkefnið hefst í dag sala á Símaklefanum til styrktar málefninu og rennur salan beint til verkefna Barnaheilla er snúa að vernd gegn ofbeldi á börnum. Símaklefinn er góður geymslustaður fyrir símtækið og býður uppá einfalda leið til þess að leggja símann.
Sex af hverjum tíu finnast börn sín eyða of miklum tíma í snjalltækjum
Þjóðarpúls Gallup sýnir að helmingur landsmanna telur sig verja of miklum tíma í símanum, eða öðrum snjalltækjum, og myndi gjarnan vilja draga úr notkun sinni. Þá telja 80% foreldra barna á aldrinum 10-14 ára barnið verja of miklum tíma í síma/snjalltækjum og myndu vilja minnka notkunina.
Nálgast má takmarkað upplag af Símaklefanum í vefverslun okkar, styðja við gott málefni og efla gæði samverustunda um leið.
„Með lýðheilsu barna í forgrunni er átakinu ætlað að hvetja fólk til að skapa góðar venjur varðandi símanotkun, alveg eins og við setjum okkur gjarnan markmið í hreyfingu, leik og starfi,“ segir Kristín Ýr Gunnarsdóttir, kynningar- og markaðsstjóri Barnaheilla.
„Á þessum tölum má sjá að það er færi á að hugsa betur hvernig við högum samvist við tækin. Eru matmálstímar símafríir, sunnudagsbrönsinn eða spilakvöldið? Litlar breytingar sem þessar velta oft þungu hlassi,“ segja Halla Hrund Logadóttir og Arna Frímannsdóttir hjá Símaklefanum.
„Við hjá Símanum lítum á það sem hlutverk okkar að stuðla að ábyrgri notkun snjalltækja. Með samstarfi okkar við Barnaheill og Símaklefann viljum við hvetja fjölskyldur til að huga að umgengni barna við snjalltæki og styðja um leið við starf Barnaheilla” segir Erla Ósk Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Sjálfbærni og menningar hjá Símanum.