Barnaheill býður upp á neðangreinda fyrirlestra:
1. 5 Skref til verndar börnum gegn kynferðisofbeldi.
Fyrirlestur ætlaður fullorðnum sem vinna með börnum og unglingum. Einnig fyrir foreldra og aðra sem bera ábyrgð á börnum.
Erindið fjallar um:
- Rannsóknir og tíðni kynferðisofbeldis hér á landi og erlendis.
- Greinamunur á fyrirbyggjandi aðferðum og leiðbeiningum eftir að ofbeldið hefur átt sér stað.
- Aðferðir til að stuðla að öruggara umhverfi (vinnustað) fyrir fullorðna, börn og ungmenni.
Fjallað er um tíðni ofbeldis hér og annarstaðar, rætt er um þá þætti sem hjálpa fólki að ræða forvarnir, eins og hvernig er rætt við börn um líkamann, mörk og samskipti. Auk þess er fjallað um leiðir til að auka samskipti fullorðinna um óæskilega kynferðislega hegðun á milli barna eða ungmenna og leiðir til að ræða um slíka hegðun og stöðva hana. Ýmis dæmi eru rædd til að geta áttað sig á hvaða þættir skipta máli þegar koma á í veg fyrir að börn verði fyrir ofbeldi. Einnig fjallað um tilfinningavanda barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi og hvaða stuðning má veita þeim þegar þau hafa orðið fyrir slíku.
2. Fyrirlestur – Einkastaðir líkamans, handbók foreldra.
„Bókin „Einkastaðir líkamans“ er sérstaklega ætluð foreldrum og fjallar um líkamann, einkastaðina og mörk. Í henni eru ábendingar og svör við þeim spurningum sem höfundar hafa fengið frá foreldrum í gegnum tíðina.
Í erindinu verður leitast við að svara spurningum eins og; Hvernig ræði ég forvarnir við börnin mín? Hvernig spyr ég ég barnið mitt þegar það sýnir breytta hegðun? Hvaða orðalag á ég að nota til að hræða ekki barnið mitt?
Höfundar bókarinnar hafa í gegnum störf sín hitt fjölda fólks sem á þá reynslu sameiginlega að hafa sætt kynferðislegu ofbeldi sem börn. Mörg þeirra hafa tjáð sig um að ef einhver hefði rætt við þau um líkamann, einkastaðina, mörk og hvað ætti að gera ef einhver færi yfir þau mörk hefði það hugsanlega hjálpað þeim að opna sig fyrr um ofbeldið sem þau urðu fyrir.
Höfundar bókarinnar eru Sigríður Björnsdóttir, sálfræðingur ásamt Kristínu Bertu Guðnadóttur, félagsráðgjafa og fjölskylduþerapista sem hefur unnið að málefnum barna og fjölskyldna þeirra á sviði barnaverndar og félagsþjónustu til margra ára. Báðar hafa þær sinnt fræðslu til fullorðinna og barna í áratug.
Bókin hlaut styrk frá Reykjavíkurborg og Biskupsstofu. Fjöldi foreldra og fagfólks las bókina yfir í vinnsluferlinu og hefur gefið henni góða dóma.
Lengd fyrirlestra: 1,5 – 2 klst með umræðum
Verð: 100.000kr
Hægt er að bóka fyrirlestra með því að senda póst á netfangið: BARNAHEILL@BARNAHEILL.IS
Upplýsingar um fyrirlesara Barnaheilla
Guðrún Helga Bjarnadóttir er leikskólakennari að mennt. Hún starfaði sem leikskólastjóri á Hvammstanga 1994 – 1998 og sem leikskólafulltrúi hjá Vestmannaeyjabæ 1999 – 2012. Guðrún er ART (Agression replacement trainer) þjálfi og hefur starfað sem slíkur frá 2007. Guðrún Helga starfaði sem leiðbeinandi hjá Blátt áfram frá því í mars 2010 þar til samtökin sameinuðust Barnaheillum 2019 og er nú verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum. Guðrún Helga hefur leitt námskeiðið Verndarar barna frá árinu 2010, flutt fyrirlestra fyrir félagasamtök og foreldrafélög, annast Lífsleikni tíma hjá grunnskólabörnum, allt frá 5. og upp í 10. bekk. Auk þess hefur Guðrún komið að kynningu á samtökunum í fjölmiðlum, flutt erindi og stýrt vinnuhópum í samstarfi við Vitundarvakningu ríkisstjórnarinnar 2012-2014. Guðrún Helga sinnir forvörnum í sinni breiðustu mynd með aðaláherslu á að ná til hins fullorðna. Einnig hefur hún komið að þjálfun fagfólks í öðrum löndum s.s. frá Grænlandi, Lettlandi og Ungverjalandi.