Samþykkt á aðalfundi Barnaheilla, 11. maí 2021

LÖG BARNAHEILLA – SAVE THE CHILDREN Á ÍSLANDI

 

1. KAFLI – Skipulag, tilgangur og markmið

1. grein

Samtökin heita Barnaheill – Save the Children á Íslandi (hér eftir Barnaheill).

Barnaheill eru samtök sem starfa á landsvísu. Þau eru frjáls mannúðarsamtök sem byggja á félaga­þátttöku og eru óháð trúarhreyfingum og stjórnmálaflokkum.

Aðsetur og varnarþing Barnaheilla eru í Reykjavík.

Merki Barnaheilla er hið sama og merki alþjóðasamtakanna Save the Children International. Óheimilt er að nota merki Barnaheilla án heimildar stjórnar.

Barnaheill taka þátt í starfsemi Save the Children International og vinna með hliðstæðum samtökum erlendis.

Barnaheill starfa skv. lögum nr. 119/2019 um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

2. grein

Tilgangur Barnaheilla er að stuðla að heimi þar sem sérhvert barn fær uppfylltan rétt sinn til lífs, verndar, þroska, menntunar og áhrifa í samfélaginu. Barnaheill stuðla að bættri umönnun og þjónustu við börn og vinna að því að ná fram varanlegum breytingum til batnaðar á högum þeirra.

Markmið Barnaheilla er að:

  1. Stuðla að bættum hag barna og fjölskyldna þeirra og hafa áhrif á viðhorf til barna í samfélaginu.
  2. Vinna að því sem orðið getur börnum til hagsbóta, hvað varðar þroska, menntun, heilbrigði og félagslega aðstöðu.
  3. Leggja höfuðáherslu á velferð og mannréttindi barna og skal ávallt hafa það að leiðarljósi að undirbúa börn undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.
  4. Taka þátt í innlendu og erlendu starfi til að tryggja jafna stöðu allra barna og fá Íslendinga til að taka á sig aukna ábyrgð á velferð barna í öðrum löndum.
  5. Vinna gegn hvers kyns ofbeldi og vanrækslu á börnum.

Til að stuðla að framgangi þeirra verkefna sem Barnaheill vinna að, beita þau sér fyrir fjáröflun jafnframt því sem þau styðja rannsóknir, forvarnir, menntun og útgáfustarfsemi.

Barnaheill vinna á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálans, og hafa hann að leiðarljósi í starfi sínu.

2. KAFLI – Félagsmenn og styrktaraðilar

3. grein

Sérhver einstaklingur, fyrirtæki og félagasamtök sem aðhyllist tilgang og markmið Barnaheilla getur orðið félagsmaður eða styrktaraðili í samtökunum. Skrifstofa Barnaheilla heldur skrá yfir félagsmenn og styrktaraðila fyrir samtökin.

4. grein

Árlegt félagsgjald Barnaheilla er ákveðið á aðalfundi. Félagsgjöld eru innheimt af skrifstofu Barnaheilla einu sinni á ári. Ef félagsmaður greiðir ekki félagsgjöld tvö ár í röð má taka hann af félagaskrá.

3. KAFLI – Aðalfundur

5. grein

Aðalfundur fer með æðsta vald Barnaheilla og markar stefnu samtakanna.

Aðalfund skal halda eigi síðar en í maí ár hvert. Til aðalfundar skal boða með tryggilegum hætti og með tveggja vikna fyrirvara hið skemmsta og er hann þá lögmætur.

Ábendingar og framboð vegna stjórnarkjörs, kjörs laganefndar og kjörnefndar skulu hafa borist kjörnefnd Barnaheilla með tilkynningu til skrifstofu eigi síðar en sex vikum fyrir aðalfund.

6. grein

Rétt til setu á aðalfundi eiga allir einstaklingar sem eru félagsmenn Barnaheilla eða mánaðarlegir styrktaraðilar. Atkvæðisrétt eiga allir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld umliðins árs og þeir styrktaraðilar sem hafa að lágmarki styrkt samtökin um upphæð sem nemur upphæð félagsgjalds á umliðnu ári. Hver styrktaraðili eða félagsmaður hefur eitt atkvæði á aðalfundi. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála nema annars sé getið í lögum þessum.

7. grein

Á dagskrá aðalfundar skal vera:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Ársreikningur lagður fram til samþykktar
  3. Starfsáætlun og stefnumörkun
  4. Ákvörðun félagsgjalds
  5. Lagabreytingar
  6. Kosning stjórnar
  7. Kosning laganefndar, kjörnefndar og skoðunarmanna ársreikninga
  8. Önnur mál.

4. KAFLI – Stjórn Barnaheilla, nefndir og framkvæmdastjóri

8. grein

Stjórn stýrir Barnaheillum samkvæmt lögum þessum og þeirri stefnumörkun og samþykktum sem aðalfundur ákveður. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfsskyldur hans. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri samtakanna. Stjórn og skrifstofa vinna samkvæmt starfs- og fjárhagsáætlun sem stjórn hefur samþykkt í upphafi hvers árs. Stjórn getur gengið frá fjárskuldbindingum fyrir samtökin enda séu þær innan ramma fjárhagsáætlunar. Allar fjárhagsskuldbindingar sem fara út fyrir ramma fjárhagsáætlunar skal leggja fram fyrir stjórn til samþykkis. Samþykki 2/3 hluta aðalfundar þarf þó fyrir öllum meiriháttar fjárskuldbindingum og fjárskuldbindingum til lengri tíma en eins árs.

9. grein

Í stjórn sitja 7 aðalmenn og 3 varamenn. Kjörtímabil er tvö ár í senn. Annað árið skal kjósa formann, þrjá stjórnarmenn og einn varamann. Hitt árið skal kjósa varaformann, tvo stjórnarmenn og tvo varamenn.

Aðalfundur kýs formann og varaformann sérstaklega en stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórnarmenn geta ekki setið lengur í þeim embættum sem þeir eru kosnir til en þrjú kjörtímabil í senn.

10. grein

Stjórn gerir starfsáætlun og heldur reglulega fundi á mánaðar fresti á tímabilinu september til júní, en oftar ef þurfa þykir. Stjórnarfundur er boðaður með tryggilegum hætti með dagskrá. Stjórn er atkvæðisbær ef meirihluti stjórnarmanna er viðstaddur. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í atkvæðagreiðslu. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns. Framkvæmdastjóri Barnaheilla situr stjórnarfundi og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Fulltrúi ungmennaráðs Barnaheilla hefur rétt til setu á stjórnarfundi og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

Formaður stýrir fundum. Að formanni fjarstöddum stýrir varaformaður fundi. Í fjarveru beggja er fundi aflýst.

11. grein – Laganefnd

Aðalfundur kýs þriggja manna laganefnd og tvo til vara. Hlutverk laganefndar erað vera stjórn til ráðuneytis er varðar lög samtakanna. Fulltrúar í laganefnd geta að jafnaði ekki setið lengur en fimm ár samfellt.

Laganefnd er starfsfólki Barnaheilla til ráðgjafar við gerð lagaumsagna til Alþingis. Starfsmaður Barnaheilla boðar til funda ef þurfa þykir.

12. grein – Kjörnefnd

Aðalfundur kýs þriggja manna kjörnefnd og tvo til vara og skulu þeir ekki eiga sæti í stjórn Barnaheilla. Varamenn skulu kallaðir til ef aðalmenn geta ekki sótt fund. Formaður stjórnar Barnaheilla starfar með kjörnefnd og hefur hann rétt til setu á fundum hennar sem og málfrelsi og tillögurétt. Hlutverk kjörnefndar er að leggja fram tillögur á aðalfundi um fulltrúa í stjórn, nefndir sem kjósa þarf og skoðunarmenn ársreikninga. Fulltrúar í kjörnefnd geta að jafnaði ekki setið lengur en fimm ár samfellt.

Framkvæmdastjóri Barnaheilla er starfsmaður nefndarinnar og sér hann um boðun funda.

5. KAFLI – Reikningar og endurskoðun

13. grein

Fjárhagsárið skal fylgja almanaksárinu. Stjórn ber ábyrgð á því að reikningar séu færðir samkvæmt almennum reglum um bókhald. Reikningar skulu yfirfarnir og stöður staðfestar af löggiltum endurskoðanda. Endurskoðandi er ráðinn á grundvelli ráðningarbréfs. Jafnframt fara yfir reikningana tveir skoðunarmenn sem kjörnir eru á aðalfundi þar sem einnig skal kjósa tvo til vara. Skoðunarmenn reikninga geta að jafnaði ekki starfað lengur en 5 ár í senn fyrir samtökin.

Reikningar skulu lagðir, yfirfarnir af endurskoðanda og skoðaðir af skoðunarmönnum, fyrir aðalfund á hverju ári.

6. KAFLI – Deildir Barnaheilla

14. grein

Ungmennaráð Barnaheilla starfar sjálfstætt innan Barnaheilla. Ungmennaráðið velur sér stjórn í upphafi hvers starfsárs. Ungmennaráð skal leggja fram fjárhagsáætlun og framkvæmdaáætlun fyrir stjórn Barnaheilla til staðfestingar í upphafi starfsárs.

Starfsár ungmennaráðs er september til ágúst ár hvert. Fjárreiður ungmennaráðs skulu vera í höndum skrifstofu Barnaheilla í umboði stjórnar þess. Barnaheill úthlutar ungmennaráði fjárheimildum í upphafi hvers starfsárs ungmennaráðsins sem stjórn ungmennaráðs byggir sína fjárhagsáætlun á.

Ungmennaráð starfar samkvæmt lögum Barnaheilla, stefnumörkun og samþykktum aðalfundar hverju sinni. Ungmennaráð skulu setja sér reglur þar sem kveðið er á um skipulag þess og annað sem nauðsynlegt þykir. Reglurnar skulu sendar stjórn samtakanna til samþykktar.

Starfsfólk Barnaheilla er ungmennaráðinu til stuðnings og þjónustu.

7. KAFLI – Að leggja niður samtökin

15. grein

Hægt er að leggja niður samtökin Barnaheill á aðalfundi ef aðalfundur samþykkir tillögu þess efnis með minnst 2/3 hlutum atkvæða og verði slík ákvörðun staðfest með sama meirihluta á aukaaðalfundi sem halda skal í fyrsta lagi sex mánuðum síðar. Sá aðalfundur sem tekur endanlega ákvörðun skal skipta upp eignum samtakanna milli sambærilegra samtaka innanlands eða utan eftir að öllum fjárhagslegum skuldbindingum, s.s. launum og öðrum réttindum starfsfólks hefur verið fullnægt.

Reikningar samtakanna, yfirfarnir af löggiltum endurskoðanda, skulu liggja fyrir áður en samtökin eru lögð niður.

8. KAFLI – Breytingar á lögum

16. grein

Lögum Barnaheilla verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn í síðasta lagi sex vikum fyrir aðalfund og liggja frammi á skrifstofu samtakanna. Tillögur sem berast síðar má bera upp á aðalfundi sé það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Lagabreytingar þarf að samþykkja með minnst 2/3 hlutum atkvæða.