Börn eiga rétt á því að líða vel heima hjá sér. Stundum er það bara ekki þannig. Ástæðurnar geta verið margar. Heimilisofbeldi er eitt af því sem veldur börnum mikilli vanlíðan, hvort sem börnin sjálf verða fyrir ofbeldinu eða horfa upp á að einhver í fjölskyldunni beitir annan í fjölskyldunni ofbeldi.
Að berja einhvern er ofbeldi, en hótanir, ógnandi framkoma og öskur eru líka ofbeldi. Foreldrar mega ekki beita börn sín ofbeldi. Þeir mega ekki flengja, slá, meiða, öskra eða tala niður til barna. Öll börn eiga rétt á vernd og öryggi, jafnt á heimilinu og utan þess.
Börn bera aldrei ábyrgð á því ofbeldi sem þau verða fyrir eða horfa upp á og eiga það aldrei skilið. Heimilisofbeldi ætti aldrei að eiga sér stað og börn eiga aldrei að þurfa að upplifa slíkt. Ef þú ert beitt/ur ofbeldi þá skaltu leita eftir aðstoð. Hægt er að leita til námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðings og kennara og þau hjálpa þér með næstu skref. Það er líka hægt að hringja í 112 og fá upplýsingar um barnaverndarnefnd í þínu sveitarfélagi. Barnaverndarefnd athugar þá hvernig aðstæður eru og koma þér til hjálpar. Þú getur líka látið barnavernd vita ef þú veist um einhvern annan sem beittur er ofbeldi. Ef maður veit um slíkt ber manni skylda til að láta vita.