Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.
2004 – Upphafið
Ágrip af sögu Blátt áfram
Forvarnarverkefnið Blátt áfram er hugarfóstur systranna Sigríðar og Svövu Björnsdætra. Þær urðu fyrir kynferðisofbeldi í æsku og stofnuðu Blátt áfram þar sem þeim fannst vanta á umræðu og úrræði í málaflokknum og mikilvægt að koma á framfæri og fræða fólk um hvaða afleiðingar kynferðisofbeldi getur haft á börn ásamt því að finna leiðir sem hugsanlega gæti komið í veg fyrir að börn lendi í slíku ofbeldi. Systurnar vildu því nýta sína erfiðu reynslu til góðs og leggja sitt af mörkum til að forða öðrum börnum frá því að lenda í því sama.
Það var árið 2004 sem verkefnið hóf göngu sína, þá sem samstarfsverkefni systranna og UMFÍ. Verkefninu var ýtt úr vör með styrk frá Menningarsjóði Íslandsbanka og Sjóvá-Almennum, í júlí 2004, og var þá forvarnarverkefni og innlegg UMFÍ í baráttuna gegn kynferðisofbeldi gegn börnum og unglingum og einnig ætlað að miðla upplýsingum og fræðslu um kynferðisofbeldi. Frá árinu 2005 hafa Blátt áfram starfað sem sjálfstæð samtök.
Kveikjan að verkefninu var sú að Svava sem var búsett í Bandaríkjunum rakst á auglýsingu með eftirfarandi yfirskrift í blaði: „Ein af vinkonum dóttur þinnar er misnotuð kynferðislega. Veist þú hver hún er?” Fyrir neðan var svo vísað á heimasíðu grasrótarsamtaka, Darkness to Light, sem eru staðsett í Suður-Karólínu og beita sér í baráttunni gegn kynferðisofbeldi á börnum. Svava hafði samband við Anne Lee framkvæmdastjóra samtakanna og fékk leyfi til að láta þýða bækling sem samtökin hafa gefið út. Í bæklingnum er lögð áhersla á að þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að fræða börn um þessi mál sé ábyrgðin ætíð hinna fullorðnu. Ekki bara pabba og mömmu heldur líka allra annarra fullorðinna í umhverfi barnsins. Afar, ömmur, frænkur, vinir og nágrannar skipta gríðarlega miklu máli, ekki síst vegna þess að rannsóknir sýna að gerendurnir eru oftast feður eða í föðurhlutverki barnsins.
Þegar leyfi fyrir þýðingu bæklingsins var í höfn hófst leit að styrktar- og samstarfsaðilum því takmarkið var að koma bæklingnum inn á öll heimili landsins. Eftir fundi með aðilum innan ýmissa stofnana og fyrirtækja í Reykjavík, þar sem systrunum var vel tekið og þær hvattar til dáða, var ljóst að erfitt væri að fá peninga í verkefnið. Það var svo ekki fyrr en Sigríður hitti Pál Guðmundsson kynningarfulltrúa UMFÍ að boltinn fór að rúlla. UMFÍ tók svo forvarnarverkefnið að sér með því að halda utan um framkvæmdina, ráða starfsmann og einnig með fjárframlögum. Eftir að þetta lá fyrir fékkst fjárstyrkur frá Íslandsbanka og Sjóvá – almennum til útgáfu bæklingsins. Þar með var verkefnið komið á fullt skrið og bæklingnum var dreift á öll heimili í landinu í nóvember 2004.
Í fyrstu verkefnisstjórn Blátt áfram sátu:
- Helga Guðjónsdóttir formaður.
- Ásdís Helga Bjarnadóttir.
- Svava Björnsdóttir verkefnisstjóri.
- Sigríður Björnsdóttir sem sat í verkefnisstjórninni.
Fyrstu verkefni
Fyrir utan bæklinginn, sem áður er nefndur, var megin áhersla lögð á heimasíðu sem hefur æ síðan gengt veigamiklu hlutverki í starfi Blátt áfram. Þar er að finna allar upplýsingar um starfið og þau verkefni og fræðslu sem er í boði fyrir fullorðna, fagfólk og börn.
Fljótlega fóru að berast fyrirspurnir frá skólum um fræðslu fyrir börn og unglinga og því kom upp sú hugmynd að setja af stað brúðuleikhúsverkefnið Krakkarnir í hverfinu til að fræða grunnskólabörn um kynferðisofbeldi. Krakkarnir í hverfinu er líka frá Bandaríkjunum, eins og bæklingurinn, og heitir þar The Kids on the Block og er notað til að nálgast börn með fræðslu á mörgum sviðum s.s. fötlun, félagsleg vandamál og heilbrigðisvanda af ýmsu tagi. Um 40 verkefni af þessu tagi hafa verið þróuð. Stutt fræðslutengd leikrit þar sem eins metra háar leikbrúður eru notaðar til að fræða börn um mál sem koma upp í samfélaginu.
Farið var af stað með reynslusýningar á Krökkunum í blokkinni vorið 2005 og frá upphafi hafa brúðuleikhússtýrurnar Hallveg Thorlacius og Helga Arnalds séð um brúðusýningarnar.
Söngskóli Maríu og Siggu styrkti verkefnið með útgáfu á geisladiski með jólalögum þar sem valdir nemendur skólans sungu.
2005
Árið 2005 var lögð áhersla á að bjóða fræðslu fyrir sem flesta; börn, foreldra og aðra fullorðna sem bera ábyrgð á börnum. Unnið var í því að komast í samband við félög og stofnanir og bjóða þar upp á fræðslu.
Þann 6. október voru haldnir tónleikar á Gauki á Stöng þar sem margir tónlistarmenn og hljómsveitirnar eins og Ragnheiður Gröndal, Buff, Ske, Hera, Lokbrá, Hot Damn, Smack, Solid iv og Mínus komu fram til styrktar Blátt áfram. Seinna í sama mánuði stóð Blátt áfram fyrir kvikmyndasýningu á myndinni Searching for Angela Sheltoná kvikmyndahátíðinni í Reykjavík en myndin er heimildamynd um kynferðisofbeldi.
Námskeiðið Verndarar barna fór af stað á árinu og var það mikið framfaraskref í fræðslu um kynferðisofbeldi og forvörnum. Það er sérhannað fyrir stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem þjóna börnum og unglingum sem og fyrir einstaklinga sem bera ábyrgð á umönnun og verndun barna, sínum eigin og annarra.
Blátt áfram, ásamt samtökunum Styrkur – úr hlekkjum til frelsis, stóðu fyrir því að rjúfa samsæri þagnarinnar á Arnarhóli laugardaginn 9. apríl. Framtakið fólst í því að hengja upp boli sem fólk hafði skrifað á skilaboð gegn ofbeldi og var tilgangurinn að vekja athygli á ofbeldi á Íslandi.
Á ráðstefnu sem haldin var 12. apríl í Kennaraháskóla Íslands af samtökunum Styrkur – úr hlekkjum til frelsis greindi Svava frá reynslu sinni af andlegu, líkamlegu og kynferðisofbeldi og var það framlag Blátt áfram á ráðstefnunni. Einnig skýrði dr. Sigríður Halldórsdóttir prófessor við heilbrigðisdeild Háskóla Akureyrar frá rannsókn sinni á hjónabandsháska. Í frétt af ráðstefnunni segir í Morgunblaðinu: „Voru lýsingar og frásagnir á köflum svo þrungnar erfiðri reynslu og tilfinningaróti að fjölmargir áheyrendur táruðust og klökknuðu í þéttskipuðum salnum.“
Hinn 26. apríl afhentu Sigríður og Svava formanni allsherjarnefndar Alþingis yfir 14.000 undirskriftir við hvatningu Blátt áfram um afnám fyrningarfrests á kynferðisafbrotum gegn börnum og var hvatt til þess að lagafrumvarp þar að lútandi yrði afgreitt á Alþingi. Frumvarpið var ekki afgreitt á vorþingi 2005 og af því tilefni var efnt til mótmæla á þingpöllum sem Blátt áfram tók þátt í.
Þann 31. ágúst stóð Blátt áfram að Andafjöri í Elliðaárdal í annað sinn. Andafjör var haldið í samvinnu við Body Shop og fyrir utan að vera fjölskylduskemmtun þar sem gúmmíöndum var fleytt niður Elliðaár var tilgangurinn að halda á lofti umræðu um kynferðisofbeldi.
Blátt áfram var styrkt að mestu leyti með framlögum frá fyrirtækjum, t.d. Alcan, og Actavis sem styrkti verkefnið um eina milljón í tilefni kvennafrídagsins 24. október, og einstaklingum en einnig fengust fjárframlög frá fjórum ráðuneytum.
Blátt áfram tók þátt í 16 daga átaki gegn ofbeldi meðal annars með þátttöku í fundi sem haldinn var með forsvarsmönnum stjórnmálaflokka 9. desember þar sem fjallað var um stefnu þeirra í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.
Blátt áfram tók þátt í mannréttindaráðstefnu ungs fólks sem haldin var í Ráðhúsi Reykjavíkur 19. nóvember, Ráðstefnan var sett upp í tengslum við sýninguna „Gandhi, King, Ikeda: Friður fyrir komandi kynslóðir.“ Margar mannréttindahreyfingar komu að ráðstefnunni.
2006
Erfitt hefði verið að koma Blátt áfram á framfæri án dyggilegs stuðnings UMFÍ en í apríl 2006 kom að því að verkefnið var orðið það viðamikið að tími var kominn til að stofna um það sérstök samtök. Í fyrstu stjórn samtakanna sat fjölbreyttur hópur fólks með reynslu af skólastarfi, rekstri félagasamtaka og úr atvinnulífinu ásamt fólki með reynslu úr málaflokknum.
Í fyrstu stjórn Blátt áfram félagsins sátu, Sigríður Björnsdóttir stofnandi Blátt áfram, formaður; Ragna Guðbrandsdóttir, fyrrverandi starfsmaður barnahúss og sérhæfður rannsakandi, varaformaður; Oddur Pétursson, gjaldkeri; Guðrún Ebba Ólafsdóttir, borgarfulltrúi, ritari; Helga Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólastjóri og varaformaður UMFI, varamaður og Ingibjörg G. Guðjónsdóttir, varamaður. Svava Björnsdóttir, stofnandi Blátt áfram og verkefnastjóri verkefnisins.
Sigríður var ráðinn starfsmaður félagsins til að sjá um daglegan rekstur félagsins, fyrirlestra og fræðslu. Svava sem flutti til Bandaríkjanna sinnti verkefnum í tengslum við heimasíðu og einnig leiddi hún námskeiðið Verndarar barna sem haldið er reglulega.
Lög félagsins, sem var formlega stofnað 1. mars 2006.
Verkefni og viðburðir ársins voru margvísleg. Bæklingurinn 7 skref til verndar börnum var endurprentaður í 5.000 eintökum og námskeið og fræðsla um forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum voru í boði og haldin víða.
Í febrúar fór fyrsta auglýsingaherferð Blátt áfram í gang undir nafninu Þögnin er versti óvinurinn og var ætlað að vekja foreldra til vitundar og fá þá til að uppfræða börn sín. Óhætt er að segja að auglýsingarnar hafi vakið mikla athygli eins og sjá má í fjölmiðlaumfjöllun frá þessum tíma. Mörgum þóttu auglýsingarnar óþægilegar en slíkar auglýsingar höfðu ekki áður birst í íslenskum fjölmiðlum. Í DV var fjallað um auglýsingarnar og áhrif þeirra 25. febrúar og Blaðið var einnig með ítarlega umfjöllun sama dag þar sem rætt var fagfólk og Sigríði. Fram kom hjá Braga Guðbrandssyni hjá Barnaverndarstofu að auglýsingarnar hefðu strax haft áhrif og börn hefðu tjáð sig um ofbeldi eftir að hafa séð auglýsingarnar. En ekki voru allir sáttir og í DV segir leiðarahöfundur um auglýsingarnar þann 7. mars: „Herferð samtakanna Blátt áfram í fjölmiðlum hefur farið fyrir brjóstið á sumum. Lítil börn, allt niður í þriggja ára, tala af hispursleysi um píkur, pjöllur og typpi eins og ekkert sé eðlilegra.“ Gamalkunnug rök um að karlar yrðu hræddir við eðlileg samskipti við börn fylgdu svo í kjölfarið. Óhætt er að segja að auglýsingarnar hafi hrist ærlega upp í umræðunni um kynferðisbrot gagnvart börnum. Lúðurinn viðurkenning ÍMARK fyrir almannaheillaauglýsingu fellu herferðinni í skaut.
Í mars var Blátt áfram tilnefnt til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins í flokki félagasamtaka fyrir einstaklega óeigingjarnt og ötult forvarnarstarf systranna Sigríðar og Svövu gegn kynferðisofbeldi gegn börnum. Afhenti Ólafur Ragnar Grímsson þeim verðlaunin 2. mars en þetta var í fyrsta sinn sem Fréttablaðið veitti þessi verðlaun.
Tónleikarnir Rokkað gegn ofbeldi þar sem margar helstu rokkhljómsveitir landsins komu saman á Nasa til að styrkja Blátt áfram voru haldnir 22. mars. Þeir voru haldnir að frumkvæði nokkurra nema við Kennaraháskóla Íslands sem verkefni í tómstunda- og félagsmálafræði. Fram komu hljómsveitirnar Leaves, Brain Police, Mammút, Úlpa, Vínill, Sólstafir, Lokbrá, Days of our lives og Ensími.
Sigríður var í viðtali undir yfirskriftinni: „Gengur kynslóð fram af kynslóð ef ekkert er að gert.“ í Helgarblaði DV hinn 12. apríl þar sem hún segir sína sögu af kynferðisofbeldi.
Ráðstefna á vegum Blátt áfram, Yfirstígum óttann, var haldin í Kennaraháskólanum 4. maí þar sem fram kom fagfólk og embættismenn til að skoða allar þær leiðir sem samfélagið getur farið í að fyrirbyggja kynferðisofbeldi gegn börnum. Ráðstefnan var haldin í samvinnu við Barnaverndarstofu og Actavis. Í tilefni ráðstefnunnar var viðtal við Sigríði í blaðinu hinn 4. maí og frétt um ráðstefnuna í Fréttablaðinu hinn 5. maí þar sem m.a kom fram að fjórðungur gerenda í kynferðisbrotamálum er yngri en átján ára. Morgunblaðið fjallaði einnig um ráðstefnuna og þörfina á því að fræða börn og unglinga um hvað á að gera ef þau verða vör við kynferðisofbeldi meðal vina og kunningja.
Velunnarar Blátt áfram leynast víða og í maí stóðu nemendur í 9. bekk Álftamýrarskóla fyrir skemmtun fyrir yngri nemendur og rann ágóðinn, tæpar 70.000 kr. til Blátt áfram.
Í júlí hlupu félagarnir Arnaldur Birgir Konráðsson, Evert Víglundsson og Róbert Traustason frá Hellu til Reykjavíkur til styrktar Blátt áfram og rann ágóðinn til auglýsingaherferðar félagsins haustið 2008.
Á árinu hélt áfram undirskriftasöfnun Blátt áfram þar sem alþingismenn voru hvattir til þess að samþykkja lagafrumvarp Ágústs Ólafs Ágústssonar um afnám fyrningarfrests á kynferðisbrotum gegn börnum. Í lok júní höfðu safnast samtals 20.000 undirskriftir.
Félaginu barst veglegur styrkur frá fyrirtækjunum Heklu, SP fjármögnun og VÍS í júní þegar félaginu var afhent bifreið af gerðinni Skoda Octavia.
2007
Í febrúar kom út á vegum Blátt áfram bókin Þetta eru mínir einkastaðir, eftir Diane Hansen, en Hagkaup studdi útgáfuna. Fjögurra ára dóttir Diane, Charlotte, gerði myndirnar í bókinni. Henni er ætlað að aðstoða fullorðna og börn á leikskólaaldri til að ræða saman um ofbeldi á opinn og óþvingaðan hátt. Meginmarkmiðið er að gera börn meðvituð um yfirráð yfir eigin líkama og tilfinninar. Umræðan getur orðið til þess að barn opni sig og tjái ofbeldisreynslu sína.
Sigríður Björnsdóttir var í viðtali í Blaðinu í tengslum við auglýsingaherferð samtakanna í mars. Um herferðina sagði hún: „Í þessari herferð erum við að minna fólk á að kynferðisofbeldi gerist nær þér en þú heldur.“
Haldin var ráðstefna um forvarnir gegn kynferðisofbeldi gagnvart börnum 24.-25. maí sem Blátt áfram stóðu að ásamt Barnaverndarstofu, Þroskahjálp, Stígamótum, Félagi heyrnarlausra, Háskólanum í Reykjavík, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og Neyðarlínunni 112. Bandaríski fræðimaðurinn Shirley Paceley hélt erindi á ráðstefnunni og þar kom fram að fötluð börn eru í 50% meiri hættu en önnur börn á að verða fyrir kynferðisofbeldi. Til að draga úr þessari hættu er nauðsynlegt að fræða bæði börnin og þá sem starfa með þeim. 97% gerenda þekkja börnin, vinna með þeim í skóla eða dagvistun eða eru bundnir þeim fjölskylduböndum.
Ráðstefnan sendi eftirfarandi áskorun til ríkisstjórnarinnar:
„Í lok maí sl. héldu Blátt áfram, Þroskahjálp, Barnaverndarstofa, Félag heyrnarlausra, Háskólinn í Reykjavík, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Stígamót og Neyðarlínan 112 ráðstefnu um forvarnir gegn kynferðisofbeldi.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið veitti ráðstefnunni 750.000 kr. styrk úr sjóði tileinkaður mannúðarmálum. Ráðstefnan fagnar stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um barnvænt samfélag og að forvarnarstarf gegn kynferðisofbeldi verði eflt.
Mikilvægt er að ríkisstjórnin afli þegar í stað upplýsinga frá þeim sem stóðu að ráðstefnunni og eftirfarandi þættir eru nauðsynlegastir í fyrstu atrennu:
Auknar verði fjárveitingar til samtaka og félaga sem vinna að forvörnum gegn kynferðisofbeldi.
Gerður verði leiðarvísir um stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir allar stofnanir sem vinna með börnum og unglingum og þeim gert skylt að nýta sér hann.
Veitt verði aukið fjármagn til fræðslu fyrir foreldra um þroska barna.
Kynlífsfræðsla í skólum verði efld.
Viðurkennd verði þörf fyrir aukna þjónustu við heyrnarlausa og fatlaða og hún aukin.
Blátt áfram og samstarfsaðilar um ráðstefnu um forvarnir gegn kynferðisofbeldi eru reiðubúin til samstarfs við ríkisstjórnina um frekari aðgerðir.“
Fólk fer ýmsar leiðir til að styrkja Blátt áfram og Unnur Pálmarsdóttir sem staðið hefur fyrir heilsuhátíðinni Fusion ákvað að nota þolfimitíma til að safna frjálsum framlögum fyrir samtökin. Fólk greiddi sig inn í tímann og ágóðinn rann óskiptur til Blátt áfram.
Í september var kvikmyndin Veðramót sem fjallar um sifjaspell og afleiðingar þess frumsýnd og sagði Guðný Halldórsdóttir leikstjóri í blaðaviðtali:
„Þetta eru eiginlega mín viðbrögð, mitt framlag til umræðunnar um sifjaspell. Og virðingarvottur fyrir samtök á borð við Stígamót og Blátt áfram sem hafa unnið þrotlaust starf á þessum vettvangi.“
Á haustmánuðum var Hveragerðisbær fyrsta sveitarfélagið á landinu sem tók upp samstarf við Blátt áfram um forvarnarverkefnið Verndarar barna og skyldu allir starfsmenn sveitarfélagsins sem unnu með börnum sækja námskeiðið. Markmiðið var að veita fullorðnu fólki öfluga fræðslu og markvissa þjálfun í að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við kynferðisofbeldi á börnum af hugrekki og ábyrgð.
Nylon-flokkurinn styrkti starf Blátt áfram með því að ánafna samtökunum tekjum af safnplötu sinni.
Aðalfundur samtakanna var haldinn 30. mars og var send út ályktun af því tilefni. Þar sagði að Blátt áfram hafi í þrjú ár safnað áskorunum á ráðherra og þingmenn um að afnema fyrningarfrest kynferðisbrota. Alls um 23.000 undirskriftum. Blað var svo brotið í sögu íslensks réttlætis hinn 16. mars þegar samþykkt var á Alþingi að fella niður fyrningarfrest að því er varðar alvarlegust brot gagnvart börnum. Í ályktuninni segir svo: „Þó að það sé nú undir dómsvaldinu komið að skera úr um hvaða brot séu þau alvarlegustu, þá eru öll kynferðisbrot gagnvart börnum alvarleg. Með því að tengja fyrningarfrest brota og að fyrning hefjist við 18 ára aldurinn og telji 15 ár er það töluverður ávinningur fyrir brotaþolendurna, sem flestir eru ekki tilbúnir að kæra fyrr en þeir hafa náð fullorðinsaldri.“
Blátt áfram buðu í febrúar fyrirtækjum og einstaklingum upp á samstarf við að taka þátt í áheitaferðum í samstarfi við íslenska fjallaleiðsögumenn. Þannig bauðst fyrirtækjum að styrkja Blátt áfram með áheitasöfnun og sigrast um leið á nýjum áskorunum.
Í mars fengu samtökin hálfrar milljón króna styrk frá Alcoa-Fjarðaráli til forvarnarstarfa i skólum á Austurlandi. Styrkurinn var notaður í sýningarferð Brúðuleikhússins um Austurland með sýninguna Krakkarnir í hverfinu.
Í apríl fengu samtökin úthlutað milljón króna styrk frá menningarsjóði Landbankans til forvarna gegn kynferðislegri misnotkun barna.
2008
Eins og áður felast verkefni félagsins fyrst og fremst í forvarnafræðslu í skólum og stofnunum, bæði til barna og fullorðinna.
Í janúar var viðtal við Sigríði í Fréttablaðinu þar sem greint var frá því að Blátt áfram hefðu sett sér það markmið að mennta 5% þjóðarinnar til að verjast ofbeldi gegn börnum með því að mennta 11.250 fullorðna einstaklinga á 5-7 árum.
Gunnþórunn Jónsdóttir skrifaði grein til að hvetja yfirvöld að nýta sér úrræði Blátt áfram.
Fjáröflun var haldin í Vetrargarðinum í Smáralind þann 22. mars. Sterkustu menn Íslands sýndu krafta sína og hljómsveitirnar Brain policy, Nylon og DJ Stef spiluðu fyrir gesti. Þá var í boði BMX stökksýning, Taekwondo, fimleika- og boxsýning, Bjarni töframaður kom fram og margt fleira var til skemmtunar.
Fræðslu og forvarnarfélag lækna- og hjúkrunarfræðinema hélt Málþing um ofbeldi gegn börnum og fulltrúi Blátt áfram hélt erindi ásamt aðilum frá Barnaverndarstofu, Barnahúsi og sérfræðingum í barnalækningum.
Árleg ráðstefna Blátt áfram var haldin í Háskólanum í Reykjavík dagana 15.-16. maí undir yfirskriftinni Forvarnir er besta leiðin gegn kynferðisofbeldi. Fjórir erlendir fyrirlesarar komu á ráðstefnuna; Shirley Paceley ráðgjafi, rithöfundur, stofnandi og forstjóri Blue Tower Training center; Vincent Felitti læknir við forvarnadeild Medicine Kaiser Permanent Care Progrem í Kaliforníu, Justin Berry og Karen Anderson yfirmaður og ráðgjafi hjá barnahúsi í Kaliforníu. Íslensku fyrirlesararnir á ráðstefnunni voru Sigrún Sigurðardóttir meistaranemi í heilbrigðisvísindum, Svava Björnsdóttir starfsmaður Blátt áfram og Þorbjörg Sveinsdóttir sálfræðingur.
Foreldrafélög í leikskólum Reykjanesbæjar tóku sig til og hófu fræðsluátak um kynferðisofbeldi gagnvart börnum og gáfu öllum börnum í leikskólunum bókina Þetta eru mínir einkastaðir. Alls var 600 bókum dreift og haldinn var fræðslufundur fyrir foreldra.
Hinn 8. maí voru haldnir styrktartónleikar fyrir Blátt áfram á Nasa, þar sem allar helstu hljómsveitir landsins komu fram; Sálin hans Jóns míns, Ný dönsk, Buff, Ljótu hálfvitarnir, Mercedez Club, Brain Police, Nylon og Rokksveit Rúnars Júlíussonar. Markmiðið með söfnuninni var að fjármagna auglýsingaherferð til að minna foreldra og forráðamenn á mikilvægi forvarna og samskipta við börnin sín.
Í viðtali við Blaðið hinn 8. maí ræddi Sigríður um þá sorglegu staðreynd að alltof mörg kynferðisbrotamál komast aldrei upp. Þó hafði tilkynningum til lögreglu um kynferðisbrot fjölgað verulega það sem liðið var af árinu. Mikilvægi fræðslu er að skila sér og aldrei ofbrýnt hve mikilvæg hún er, sérstaklega innan skólanna. Ólafur Þ. Stephensen tók málið svo upp í leiðara 24 Stunda daginn eftir.
Blátt áfram tók þátt í alþjóðlegum viðburði, „Standing women“ ásamt öðrum íslenskum hreyfingum kvenna. Íslensku konurnar hittust við Þvottalaugarnar í Laugardal og íhuguðu í þögn í fimm mínútur um betri heim með hreinu drykkjarvatni, nægum mat og heimili á ofbeldis, öllum börnum til handa.
Gospelkór Jóns Vídalín í Garðabæ hélt vortónleika 25. maí og rann allur ágóði til Blátt áfram og Hjálparstarfs kirkjunnar.
Stjórn Blátt áfram sendi frá sér áskorun hinn 13. júní þar sem hvatt var til þess að umræður um kynferðisofbeldi verði opinberar og augljósar og réttarvernd barna aukin. Yfirskrift áskorunninnar var „Þögnin er versti óvinurinn.“
Brúðuleikhússýningin Krakkarnir í hverfinu var á ferð um landið og Hallveig Thorlacius greindi frá því í viðtali við 24 stundir að vitað væri til þess að 8 tilkynningar hafi borist til barnaverndaryfirvalda eftir sýningu í bæ úti á landi.
Átakið Verndarar barna fór af stað þann 30. september og var markmiðið að vekja fólk til vitundar um kynferðisofbeldi gegn börnum. Ferðast var um landið og haldið námskeið í hverjum bæ.
Þann 23. október var haldinn fundur undir heitinu „Ofbeldi gegn konum og börnum. Þjóðfélagsmein! Hvað er til ráða?“ í Fríkirkjunni. Sigríður var þar með framsögu ásamt Sigþrúði Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Kvennaathvarfsins og Guðrúnu Jónsdóttur talskonu Stígamóta.
Barnaheill veitti Blátt áfram viðurkenningu sína fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra hinn 20. nóvember. Í tilkynningu Barnaheilla kom fram að Blátt áfram hafi verið fremst í flokki þeirra sem hafi varpað hulunni af þeirri leynd sem hefur hvílt á kynferðisofbeldi gegn börnum.
Styrktarkvöld var haldið í Nýlenduvöruverslun Hemma og Valda 20. desember. Söngtríóið 3 raddir og Sprengjuhöllin spiluðu nokkur lög og Bogomil Font flutti nokkur hinsegin jólalög.
Á þessu þriðja starfsári fengu samtökin 21. milljón í styrki en reksturinn byggist eingöngu á styrkjum og frjálsum framlögum. Hafið var samstarf við Miðlun ehf. um að afla stuðningsaðila fyrir samtökin til að tryggja markmið samtakanna um að rúmlega 11.000 manns sæki námskeiðið Verndarar barna. Starfsmenn Glitnis, viðskiptavinir og aðrir þátttakendur hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Blátt áfram og söfnuðu 431.700 kr.
Ýmsar fleiri uppákomur voru á árinu.
Aðalfundur samtakanna var haldinn hinn 19. maí og í stjórn samtakanna sátu:
- Sigríður Björnsdóttir starfsmaður og formaður
- Svava Björnsdóttir varaformaður stjórnar
- Oddur Pétursson , gjaldkeri
- Guðrún Ebba Ólafsdóttir grunnskólakennari, ritari
- Hrönn Þormóðsdóttir kerfisfræðingur, varsstjórn
- Chien Tai Shill aðjúnkt í félagsráðgjöf, varastjórn
Skrifstofa félagsins var að Haukanesi 23 í Garðabæ og voru afnot húsnæðisins styrkur frá eigenda þess ásamt afnotum af bifreið.
Helstu verkefni félagsins á árinu voru:
- 1.700 fullorðnir hlustuðu á fyrirlestur um hvernig hægt er að fyrirbyggja kynferðisofbeldi.
- 350 fullorðnir gerðust Verndarar barna.
- 20 fullorðnir urðu leiðbeinendur Verndara barna.
- 1.560 unglingar sáu brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu.
- Barnabókin Mínir einkastaðir var endurprentuð í 3000 eintökum og 600 börn fengu bókina gefins. Bæklingurinn 7 skref til verndar börnum var endurútgefin í 1000 eintökum.
- 5 ára forvarnaátak
- Vinnubók námskeiðsins Verndara barna var þýdd og prentuð í 11.250 eintökum.
- Farið var af stað með nýja auglýsingaherferð, bæði sjónvarps og blaðaauglýsingar. Þar á meðal heilsíðuauglýsingu um 7 skrefa-bæklinginn.
- Hátíð barna var haldin í Vetrargarðinum.
- Fleiri sjálfboðaliðar tóku þátt í starfi samtakanna og fleiri aðilar komu að fræðslunni.
- Samtökin héldu víða fyrirlestra um málaflokkinn.
- 1.500 unglingar fengu fræðslu. Fulltrúar samtakanna mættu í lífsleiknitíma í 7.-10. bekk grunnskólanna og ræddu við krakkana um samskipti og fleira.
2009
Blátt áfram gerðu sjónvarpsþættina Blátt áfram – ábyrgðin er okkar! sem voru sýndir einu sinni í mánuði á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Í þáttunum var leitast við að velta upp ýmsum spurningum sem lúta að forvörnum gegn kynferðisofbeldi.
Blátt áfram stóð þann 18. apríl fyrir námskeiðamaraþoni undir yfirskriftinni Verndarar barna. Öllum foreldrum var boðið að sitja þrjú gjaldfrí námskeið. Einnig var fréttastjórum og ritstjórum boðið að sitja námskeiðið Verndarar barna.
Ráðstefnan Forvarnir er besta vörnin fór fram í Háskólanum í Reykjavík dagana 19.-20. maí. Eins og fyrr var tilgangurinn að bjóða helstu stofnunum og félagasamtökum að taka þátt í því mikilvæga forvarnarverkefni að vernda börn gegn kynferðisofbeldi. Gestir að þessu sinni voru David Burton Ph.D. sem fjallaði um rannsóknir og samanburð á meðferðarúrræðum fyrir unga gerendur, Linn Getz læknir fjallaði um hvaða áhrif áföll í æsku geta haft á heilsuna síðar og Britt Fredemann verkefnastjóri BellaNet. Einnig komu fram Þorbjörg Sveinsdóttir í Barnahúsi, Gerður Árnadóttir frá Þroskahjálp ásamt erindum frá SAFT, Stígamótum, Sólstöfum Vestfjarða og Blátt áfram.
Í byrjun apríl kom fram í fréttum að sveitarfélögin á Vestfjörðum hafi orðið fyrst til að ná því marki að senda 5% fullorðinna á Vestfjörðum á forvarnarnámskeiðið Verndarar barna. Alls fengu 250 manns sem störfuðu við stofnanir á Vestfjörðum fræðslu. Lykilmanneskja í þessum árangri var Harpa Oddbjörnsdóttir hjá Sólstöfum Vestfjarða ásamt samstarfskonum sínum.
Samtökin unnu með íþróttafélaginu HK að því að bæta innra gæðaeftirlit félagins og félagið er fyrsta íþróttafélagið sem skyldar þjálfara sína til að sækja námskeiðið Verndarar barna. Einnig setti félagið sér siðareglur þjálfara, iðkenda, stjórnarmanna og annarra sem koma að starfi félagsins.
Blátt áfram hefur útbúið leiðarvísi fyrir foreldra um val á stofnunum og tómstundum fyrir börn. Leiðarvísirinn er til þess fallinn að auka skilning foreldra á barnaverndarreglum og bendir á leiðir til að bæta þær.
Fyrsta auglýsingaherferð Blátt áfram verður endursýnd í fjölmiðlum daganna 21.–27. september en hún vakti mikla athygli og umfjöllun á sínum tíma. Vitað er um dæmi þess að börn og unglingar sem höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi sögðu frá og fengu hjálp í kjölfar þess að hafa séð auglýsingarnar.
Blátt áfram tók þátt í greinaskrifum 16 daga átaks gegn ofbeldi með grein Svövu Björnsdóttur, Þögn er sama og samþykki.
Á árinu fékk Blátt áfram rúmar 10 milljónir í styrki sem voru vel nýttar til að koma fræðslu samtakanna á framfæri. Þeir aðilar sem styrktu félagið að þessu sinni voru: ráðuneyti menntamála, félags- og tryggingamála, dóms- og kirkjumálar, fjármála og forsætisráðuneytið. Sérstakur styrkur kom frá félagsmálaráðuneytinu sem ætlaður er til fræðslu fyrir starfsfólk sem starfar með fötluðum börnum. Fræðslan mun styrkja starfsfólkið í að greina og þekkja merki um ofbeldi og vanrækslu en einnig að bregðast rétt við til stuðnings börnunum ef grunur er um slíkt.
Einnig fengust styrkir frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Þá fengu samtökin úthlutun úr styrktarsjóði upplýsingafyrirtækisins Teris, um 600 þúsund og styrk frá námsmannafyrirtækinu Skelli og í apríl var haldið Hollywood-ball á Broadway þar sem happadrætti var haldið til styrktar Blátt áfram. Í júní hélt Kiwanisklúbburinn Eldey í Kópavogi golfmót til styrktar Blátt áfram og söfnuðust 200.000.
Þann 22. ágúst sl. fór fram hið árlega Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Blátt áfram naut góðs af þessu nú sem oft áður en fjöldi áheita á samtökin voru 58 og söfnuðust kr. 76.195.
Helstu verkefni félagsins á árinu voru:
- Um 5050 manns hlutu fræðslu á vegum samtakanna.
- 1845 fullorðnir hlustuðu á fyrirlestur um hvernig er hægt að fyrirbyggja kynferðisofbeldi.
- 1155 fullorðnir gerðust Verndarar barna en það er mikil aukning frá síðasta ári.
- 15 fullorðnir gerðust leiðbeinendur námskeiðanna Verndarar Barna.
- 1200 unglingar fengu lífsleiknifræðslu.
- 850 börn sáu brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu. Boðið er upp á þrjár sýningar. Eina um líkamlegt ofbeldi, sem ætluð er krökkum á aldrinum 6-8 ára, eina um kynferðisofbeldi sem ætluð er krökkum á aldrinum 9-12 ára og auk þess er boðið uppá sýningu um hættuna sem fylgir því að fara upp í bíl hjá ókunnugum fyrir krakka á aldrinum 6-12 ára.
- Efnt var til auglýsingaherferðar, bæði í sjónvarpi og blöðum, þ.m.t. heilsíðuauglýsing um 7 skrefa bæklinginn. Fyrsta auglýsingaherferðin var einnig endursýnd.
- Árleg ráðstefna Blátt áfram var haldinn í Háskólanum í Reykjavík.
- Samkvænt talningu vefsíðu félagsins komu að meðaltali 199 notendur í viku inn á www.blattafram.is og skoðuðu að meðaltali 3.2 síður. Vinsælustu síðurnar fyrir utan forsíðuna eru viðburðardagatalið og síða með upplýsingum og rannsóknum, 90% af notendum eru á Íslandi.
- Heimasíða Blátt áfram heldur áfram að vera mikilvægt tæki í starfi samtakanna og komu um 20.000 heimsóknir á síðuna á árinu.
Aðalfundur samtakanna var haldinn 13. maí og eftirfarandi aðilar kosnir í stjórn:
- Sigríður Björnsdóttir formaður og starfsmaður félagsins.
- Svava Björnsdóttir
- Guðrún Ebba Ólafsdóttir
- Oddur Pétursson
- Chien Tai
- Kristín Berta Guðnadóttir, félagsráðgjafi og starfsmaður barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar.
2010
Á árinu var mikil umræða um kynferðisbrot í samfélaginu, ekki síst í kringum mál Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur en kirkjan fundaði með henni um má Ólafs Skúlasonar biskups, Guðrún hefur starfað með Blátt áfram.
Í febrúar var haldið málþing í samvinnu við lagadeild HR um unga kynferðisafbrotamenn. Sigríður Björnsdóttir verkefnisstjóri Blátt áfram var fulltrúi samtakanna.
Dagana 23.-25. apríl stóðu samtökin fyrir söfnunarátakinu Vertu upplýstur og seldust 15.000 lyklakippur. Sérstakur stuðningsaðili átaksins var knattspyrnumaðurinn Hermann Hreiðarsson. Átakið gekk það vel að samtökin gátu boðið nemendum 2. bekkjar ókeypis á leikbrúðusýninguna Krakkarnir í hverfinu og starfsfólki skólanna á námskeiðið Verndarar barna.
Hinn 16. maí hlutu samtökin Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar og tóku Sigríður og Birta Ósk Friðbertsdóttir við verðlaununum úr hendi borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, fyrir brautryðjendastarf á sviði forvarna gegn kynferðisofbeldi á börnum.
Að vanda héldu samtökin úti greinaskrifum og í nóvember birti Sigríður t.d. greinina Hverjir fremja kynferðisofbeldi gegn börnum? í Morgunblaðinu.
Samtökin eru í samstarfi við WOCAD í Svíþjóð um forvarnarfræðslu til 30 félagasamtaka þeirra sem starfa að forvörnum gegn áfengis og vímuefna neyslu kvenna.
Vigdís Guðmundsdóttir birti á árinu rannsókn um möguleg áhrif fræðslu og upplýsinga á viðbrögð starfsfólks. Hún kannaði viðbrögð fjögurra leikskólastjóra eftir að grunur vaknaði um að börn á leikskólunum hefðu verið þolendur kynferðisofbeldis. Kannað var hvort lífsgildi og stjórnunarstíll hefðu áhrif á hvernig þeir brygðust við. Jafnframt var kannað hvort munur væri á þekkingu starfsfólks eftir því hvort leikskólarnir gáfu sig út fyrir sérþekkingu á málefninu eða ekki. Niðurstaða Vigdísar benti til þess að þekking sem fæst á námskeiðinuVerndarar barna hefur mikil áhrif á rétt viðbrögð.
Reynsla er nú komin á lífsleiknifræðslu samtakanna sem boðið er upp á fyrir unglinga í 7.-10. bekk. Einn grunnskóli á höfuðborgarsvæðinu fær lífsleiknifræðslu árlega fyrir unglinga í 8. bekk. Fyrsta árið sem lífsleiknifræðslan var notuð komu upp 15 mál í kjölfar hennar meðal unglinganna sem þurftu hjálp og leituðu aðstoðar. Árangur af starfinu er því áþreifanlegur og mikilvægur.
Brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu hefur verið í boði frá árinu 2005 fyrir leik- og grunnskóla. Þegar börnin horfa á sýninguna fá þau tækifæri til að spyrja brúðurnar sem svara þeim og segja þeim hvernig best sé að bregðast við. Samstarf hefur verið við fjölskyldudeildir bæjarfélaga og er sálfræðingur eða félagsráðgjafi ávallt viðstaddur sýninguna.
Frést hefur af börnum sem hafa orðið fyrir ofbeldi, eftir að hafa horft á brúðuleikhúsið, sem leituðu sér strax hjálpar vegna vitneskjunnar af námskeiðinu. Sem dæmi má nefna unga stúlku sem var í pössun hjá frænda sínum yfir nótt. Hann leitaði á hana, hún hljóp út með síma og hringdi í móður sína. Hún var spurð síðar af hverju hún hefði brugðist við með þessum hætti. Hún svaraði að hún hefði verið búin að fá fræðslu og hefði lært þetta hjá Blátt áfram.
Rannsóknir í Kanada og Bandaríkjunum á brúðuleikhúsinu Krakkarnir í hverfinu hafa leitt í ljós að um það bil ein af hverjum þremur tilkynningum um kynferðisofbeldi gegn börnum var hægt að tengja við brúðuleikhússýningarnar.
Þetta fimmta starfsár samtakanna gekk samkvæmt áætlun hvað varðar fræðslustarfsemi og fjáröflun. Styrkir í ár komu frá mennta og menningarmála, félags- og tryggingamálaráðuneyti og forsætisráðuneytinu. Aðrir styrkir komu frá fyrirtækjum og einstaklingum m.a. 700 þúsund króna styrkir vegna ágóða af góðgerðargolfmóti Hermanns Hreiðarssonar, Herminator en mótið er árlegur viðburður. Alls voru tekjur félagsins rúmar 15 milljónir á árinu.
Stjórn félagsins skipa:
- Sigríður Björnsdóttir formaður.
- Svava Björnsdóttir varaformaður.
- Guðrún Ebba Ólafsdóttir grunnskólakennari, ritari.
- Oddur Pétursson verslunareigandi, gjaldkeri.
- Kristín Berta Guðnadóttir, félagsráðgjafi og starfsmaður barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar.
Varamenn í stjórn eru:
- Gréta Kristjánsdóttir forvarnarfulltrúi Akureyrarbæjar.
- Felix Bergsson útvarpsmaður.
Sigríður Björnsdóttir er framkvæmdastjóri samtakana. Hjá samtökunum starfar jafnframt bókari í hlutastarfi. Ennfremur hafa samtökin komið sér upp neti leiðbeinenda sem sinna forvarnarfræðslu.
Á árinu 2010 hlutu ríflega 5000 manns fræðslu á vegum Blátt áfram:
- 1000 fullorðnir einstaklingar fengu fyrirlestur um hvernig er hægt að fyrirbyggja kynferðisofbeldi.
- 700 fullorðnir gerðust Verndarar barna.
- 1500 unglingar fengu lífsleiknifræðslu.
- 2000 börn sáu brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu.
- 24 aðilar eru nú leiðbeinendur Verndara barna.
2011
Starfsemin á árinu var í takt við áætlanir stjórnar og gott betur, bæði hvað varðar fræðslustarfsemi og fjáröflun. Styrkir í ár komu frá velferðarráðuneytinu, landlæknisembættinu og Sambandi íslenskra sveitafélaga. Aðrir styrkir komu frá fyrirtækjum og einstaklingum.
Lyklakippur Blátt áfram voru til sölu annað árið í röð og fór salan fram dagana 6.-8. maí og seldust 17.000 lyklakippur.
Dagana 19. og 20. maí var ráðstefna Blátt áfram í Háskólanum í Reykjavík haldin undir yfirskriftinni Er barnið þitt í öruggum höndum? Bandaríski réttarsálfræðingurinn Carla Van Dam var gestur ráðstefnunnar og fjallaði um tælingu barna. Þá kynnti Bryndís Björk Ásgeirsdóttir rannsókn sína um kynferðisbrot gegn unglingum.
Lögreglan hefur orðið áþreifanlega vör við árangurinn af starfi Blátt áfram og fleiri aðila sem vinna gegn ofbeldi og Sigríður Hjaltested aðstoðarsaksóknari vakti athygli á því í grein sinni Enn um forvarnir í Fréttablaðinu 30. maí.
Bókin Hinn launhelgi glæpur. Kynferðisbrot gegn börnum kom út árið 2011 og er ómetanlegt framlag til rannsókna á kynferðisbrotum gegn börnum.
Sama stjórn hélt áfram í stjórnartauma og á liðnu ári.
Á árinu 2011 hlutu ríflega 5000 manns fræðslu á vegum Blátt áfram.
- 1000 fullorðnir einstaklingar fengu fyrirlestur um hvernig er hægt að fyrirbyggja kynferðisofbeldi.
- 700 fullorðnir gerðust Verndarar barna.
- 1500 unglingar fengu lífsleiknifræðslu.
- 2000 börn sáu brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu.
2012
Árið 2012 var Blátt áfram boðið að taka þátt í nýju félagi, Samstarfsráði í forvörnum, SAMFO. Aðildarsamtök SAMFO vinna að áfengis-, tóbaks- og vímuefnaforvörnum á vettvangi mannræktar, velferðar, félagsmála, samfélagsþróunar, uppeldis- og skólamála, íþróttamála og tómstundastarfs. Samstarfsráð um forvarnir er samstarfs- og upplýsingavettvangur íslenskra félagasamtaka og sameiginlegur málsvari þeirra. Blátt áfram lítur á aðild sína sem tækifæri til að fá fleiri aðildarfélög til að láta sig forvarnir gegn kynferðisofbeldi varða. Um 24 félög eru nú aðilar að SAMFO.
Málþingið Framtíð barna var haldið í Háskóla Íslands 23. febrúar. Sigríður Björnsdóttir verkefnastýra hélt fyrirlestur á þinginu.
Landsöfnun samtakanna, Vertu upplýstur! fór fram dagana 4.-6. maí. Landssöfnunin hefur sýnt okkur að landsmenn eru öflugir stuðningsmenn okkar og gætum við þetta ekki án þeirra.
Auglýsingaherferð félagsins í fjölmiðlum á árinu vakti mikla athygli. Yfirskrift herferðarinnar var: „Þú treystir þeim en barnið þekkir hann betur en þú. Við sjáum ekki það sem við viljum ekki sjá.“Í ár var vakin athygli á því hverjir það eru sem mögulega brjóta á börnum.. Svava Brooks skrifaði grein til að hvetja fólk til að kynna sér málið betur.
Í lok árs fékk brúðuleikhús Blátt áfram. Krakkarnir í hverfinu styrk til að sýna öllum börnum í 2. bekk grunnskóla sýningu um forvarnir gegn kynferðisofbeldi. Verkefnið, Vitundarvakning, var á vegum innanríkis-, velferðar-, og mennta og menningarmálaráðuneytis í samræmi við sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðisofbeldi og kynferðislegri misneytingu gegn börnum fór af stað á árinu.
Á vegum vitundarvakningarinnar voru haldin fræðsluþing um landið þar sem fjallað var um hlutverk grunnskóla í forvörnum og viðbrögðum við kynferðisofbeldi. Fræðsluþingin fóru fram á þremur stöðum á landinu seinni hluta árs og hélt Blátt áfram erindi fyrir tæplega tvö hundruð grunnskólakennara og fagaðila sem starfa með börnum sem sóttu þingin.
Teiknimyndin Leyndarmálið – segjum nei, segjum frá, var gerð af samtökunum Réttindi barna og er sýnd í öllum 3ju bekkjum í landinu. Blátt áfram sá um gerð fræðsluefnis fyrir kennara með myndinni.
Blátt áfram komu að ýmsum samstarfsverkefnum á árinu. T.d. tóku samtökin þátt í undirbúningsvinnu fyrir heilbrigðisáætlun sem taka á gildi 2014. Einnig tóku samtökin þátt í sameiginlegu málþingi RBF (Rannsóknarstofnun í barna og fjölskylduvernd) og Lions. Fjallað var um mikilvægi þess að fá styrki til að efla rannsóknir á forvörnum gegn kynferðisofbeldi. Sérstaklega nauðsyn þess að gera könnun á efni Blátt áfram.
Í apríl tók Blátt áfram þátt í hugmyndaflugsfundum á vegum UNICEF. Fjöldi stofnana og félagasamtaka tóku þátt í að finna leiðir til að koma í veg fyrir ofbeldi á Íslandi. Niðurstöður þeirrar vinnu kom út í skýrslu UNICEF sem var gefin út í lok ársins.
Starfsemi ársins var í takt við áætlanir stjórnar en fjáröflun var erfiðari og samdráttur í styrkjum frá ríkinu.Styrkir í ár komu frá velferðarráðuneytinu, Reykjavíkurborg og Pokasjóði. Einnig styrktu fyrirtæki og einstaklingar starfið og 470.000 kr. fengust af áheitum í Reykjavíkurmaraþoni.
Nýherji færði Blátt áfram tölvu að gjöf í ársbyrjun en samtökin urðu fyrir þeirri ógæfu að tölvu þeirra var stolið.
Þráinn Árni Baldursson í rokksveitinni Skálmöld seldi handsmíðaðan gítar á uppboði á tónleikunum Rokkjötnar í Kaplakrika í september. Allur ágóðinn rann til Blátt áfram en það var áhöfn fjölveiðiskipsins Hákons EA 148 sem hreppti Skálmaldargítarinn glæsilega fyrir 500.000 kr.
Í júlí lögðu göngugarparnir Friðrik Hólmbertsson og Guðsteinn Halldórsson land undir fót og gengu 670 km til styrktar Blátt áfram, eða frá Fonti til Táar. Þeir gengu frá Fonti á Langanesi að Reykjanesvita og söfnuðu rúmlega milljón fyrir samtökin. Féð var notað til að birta auglýsingaherferð samtakanna.
Samtökin hafa sannað mikilvægi sitt í Íslensku samfélagi, verið þrýstiafl sem þarf til að halda umræðunni opinni og hvatt fólk til að endurskoða samskipti sín og annarra. Við höfum beitt okkur fyrir endurskoðun á reglum stofnana og félaga sem starfa með börnum og ungu fólki. Það er hvatning að sjá breytingarnar sem eru að gerast í samfélaginu og fleiri og fleiri tala opinskátt og blátt áfram um málefnið, forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum.
Stjórn félagsins skipuðu:
- Sigríður Björnsdóttir formaður.
- Svava Björnsdóttir varaformaður.
- Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri, ritari.
- Oddur Pétursson verslunareigandi, gjaldkeri.
- Helga Arnalds brúðuleikhússtýra meðstjórnandi.
Varamenn í stjórn eru:
- Gréta Kristjánsdóttir forvarnarfulltrúi Akureyrarbæjar.
- Páll Ólafsson félagsráðgjafi.
Sigríður Björnsdóttir er framkvæmdastjóri samtakana. Svava Björnsdóttir Brooks starfar í hlutastarfi. Ennfremur hafa samtökin komið sér upp neti leiðbeinenda sem sinna forvarnarfræðslu á vegum Blátt áfram.
Á árinu 2012 hlutu tæplega 6110 manns fræðslu á vegum Blátt áfram.
- 600 fullorðnir einstaklingar hlustuðu á fyrirlestur um hvernig er hægt að fyrirbyggja kynferðisofbeldi.
- 850 fullorðnir gerðust Verndarar barna.
- 740 unglingar fengu lífsleiknifræðslu.
- 3920 börn í 2. bekk horfðu á alls 98 sýningar á brúðuleikhúsinu Krakkarnir í hverfinu.
- 14.000 manns fylgjast með fræðslu og ráðum til foreldra á Facebook.