Sameiginleg yfirlýsing ungmennafélaga

Ungheill, Ungmennaráð Barnaheilla, ásamt tólf öðrum ungliðahreyfingum hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau fordæma þær breytingar sem á að gera á útlendingalögum. Í yfirlýsingunni krefjast þau þess að allar lagabreytingar séu gerðar með mannréttindi að leiðarljósi.  Hér að neðan má lesa yfirlýsinguna í heild sinni.

Sameiginleg yfirlýsing ungmennafélaga

Enn og aftur höfum við sem ungmenni í landinu verulegar áhyggjur af áframhaldandi neikvæðri þróun núverandi ríkisstjórnar í málefnum útlendinga. Við krefjumst þess að allar lagabreytingar sem standa til skulu vera gerðar með mannréttindi að leiðarljósi.

Við sem ungmenni á Íslandi fordæmum frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem liggur fyrir Alþingi.
Þann 4. júní 2024 var útlendingafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, afgreitt á fundi Allsherjar- og menntamálanefndar. Þriðja umræða um það mun svo fara fram á næstu dögum áður en þingið fer í frí. Mannréttindasamtök á borð við Rauða krossinn á Íslandi, Barnaheill, UNICEF á Íslandi, Umboðsmann barna, ÖBÍ, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Íslandsdeild Amnesty International hafa fordæmt frumvarpið eins og það leggur sig.
Frumvarpið leggur til að fækkað verði nefndarmönnum frá sjö í þrjá í kærunefnd útlendingamála. Það hefur þær afleiðingar að meira álag er sett á nefndarmenn sem veldur minni skilvirkni og lengri afgreiðslutíma dvalarleyfa. Í dag sitja fulltrúar frá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands í nefndinni. Með lagabreytingum myndi dómsmálaráðherra skipa þrjá fulltrúa í nefndina og ekki er tryggt að mismunandi og fjölbreytt sjónarhorn og þekking á málaflokknum komi að borðinu.
Virkilega erfitt væri fyrir flóttafólk að standast kröfur um fjölskyldusameiningu samkvæmt frumvarpinu. Í 6. og 7. gr. frumvarpsins er lagt til að nánustu aðstendur útlendinga, sem hafa fengið viðbótarvernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi, öðlist ekki rétt til fjölskyldusameiningar fyrr en eftir a.m.k. eitt ár og fullnægir eftirfarandi skilyrðum: hefur verið virkur þátttakandi á vinnumarkaði í átta mánuði og uppfyllir skilyrði um trygga framfærslu, skilyrði um íslenskukunnáttu og hefur til umráða íbúðarhúsnæði fyrir aðstandendur sem sótt er um fjölskyldusameiningarleyfi fyrir. Einnig er vert að taka fram að fjöldi leyfa fyrir fjölskyldusameiningar fara hækkandi. Þó eru það eingöngu rúmlega 5% leyfanna frá 2013 sem eru sameiningar á vegum flóttafólks og mannúðarleyfishafa. Samt sem áður sjá íslensk stjórnvöld þörf á að setja sérreglur fyrir fólk á flótta þegar kemur að fjölskyldusameiningum.
Fjölskyldusameiningar eru gríðarlega mikilvægar, sérstaklega fyrir börn. Aðskilnaður barna frá fjölskyldu sinni getur haft alvarleg áhrif á líf og þroska barnsins. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lögbundinn á Íslandi og stjórnvöldum ber lagaleg skylda til að fylgja honum. Stjórnvöld eiga að setja í forgang það sem barninu er fyrir bestu (3. gr.) og virða og tryggja öllum börnum þau réttindi sem kveðið er á um í Barnasáttmálanum án mismununar gegn þeim né foreldra þeirra (2.gr.). Í 7. gr. sáttmálans er kveðið á um rétt barns á því að þekkja og njóta umönnunar foreldra sinna. Samkvæmt 10. gr. Barnasáttmálans kemur fram að stjórnvöldum beri að afgreiða beiðni barns eða foreldris þess um að koma til eða fara frá aðildarríki svo þau geta haldið sambandi og verið saman. Barn sem á foreldra búsetta í mismunandi ríkjum á rétt á því að viðhalda persónulegum tengslum og beinu sambandi við báða foreldra með reglubundnum hætti. Íslensk stjórnvöld eru langt frá því að uppfylla þessar einföldu kröfur.
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem stofna rétt barna til að sameinast fjölskyldu sinni í hættu. Annars vegar er lagt til í frumvarpinu að þau sem hafi sótt um eða verið veitt vernd í öðrum aðildarríkjum Schengen-samstarfsins geti ekki fengið umsókn sína um vernd teknar til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli „sérstakra tengsla“ þrátt fyrir að eiga fjölskyldumeðlim sem hefur hér dvalarleyfi. Eins og greint var frá fyrir ofan er lagt til að einstaklingar sem hafa hlotið alþjóðlega vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða viðbótarvernd þurfa að uppfylla ákveðnar kröfu sem er nær ómögulegt fyrir mörg að gera.
,,Þetta mun augljóslega geta haft þau áhrif að börn verði fjarri foreldrum sínum í langvarinn tíma áður en hægt yrði að leggja fram umsókn um slíka fjölskyldusameiningu. Oft yrði um það að ræða að börnin stæðu frammi fyrir sömu hættu í heimaríkinu yfir þann biðtíma sem var ástæðan fyrir flótta foreldrisins. Enn fremur er ljóst að það getur haft slæmar afleiðingar fyrir heilbrigði, þroska og öryggi barna að vera án umsjár foreldra sinna til langs tíma.”
Umsögn Umboðsmann barna um frumvarpið
Þessar lagabreytingar myndu valda lengri biðtíma barna til að sameinast fjölskyldu sinni. Það er okkar mat að umrætt frumvarp virði ekki ofangreindar greinar sáttmálans og hugi ekki að því sem barninu er fyrir bestu.
Í frumvarpinu er lagt til að stytta dvalarleyfi einstaklinga sem hljóta alþjóðlega vernd verulega. Dvalarleyfi á grundvelli 1.mgr 37.gr, sem veitir viðkomandi stöðu flóttamanns, væri stytt í þrjú ár í stað fjögurra ára, dvalarleyfi á grundvelli 2.mgr. 37.gr, sem veitir viðkomandi viðbótarvernd vegna almenns ástands í heimaríki, verði tvö ár í stað fjögurra ára, og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða verði til eins árs í stað tveggja ára. Að stytta gildistíma dvalarleyfa mun aðeins minnka skilvirkni og setja meira álag á stjórnvöld og Útlendingastofnun vegna fjölgun umsókna um endurnýjun á leyfi.
Vert er að hafa í huga að einstaklingar flýja ekki aðeins land sitt vegna stríðsátaka, heldur einnig vegna loftslagsáhrifa, ofsókna vegna trúarbragða, kynhneigðar og kyns svo eitthvað sé nefnt. Á heimsvísu neyðast stúlkur og konur til að flýja heimaland sitt vegna ótta við limlestingar, þvinguð hjónabönd og kynbundið ofbeldi. Lög um alþjóðlega vernd þurfa að taka tillit til mismunandi aðstæður einstaklinga.
Hröðun málsmeðferðartíma og lækkun kostnaðar má ekki koma niður á grundvallarréttindum einstaklinga
Undirrituð félög krefjast þess að ný útlendingalög verða samin í samráði við sérfræðinga í málaflokknum, mannréttindasamtök og hagsmunaaðila. Lög um alþjóðlega vernd verða að vera gerð með mannréttindi að leiðarljósi.
MANNRÉTTINDI YFIR PÓLITÍK
Ungheill, ungmennaráð Barnaheilla
Q-félag hinsegin stúdenta
Röskva- samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands
Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International
Háskólahreyfing Amnesty
Femínistafélag Háskóla Íslands
Antirasistarnir
Ungir umhverfissinnar
Ungmennaráð UNICEF
Ungmennaráð UN women
Ungt jafnaðarfólk
Ungir píratar
Ungir sósíalistar