Syndir frá Akranesi til Reykjavíkur
Sjósundkappinn Sigurgeir Svanbergsson mun synda frá Akranesi og yfir til Reykjavíkurhafnar á morgun, laugardaginn 27. júlí, til styrktar Barnaheillum en allt safnað fé mun renna til stuðnings börnum sem búa á Gaza. Leiðin sem hann mun synda er rúmir 17 kílómetrar, en hann hefur ekki synt svo langa vegalend áður. Mun hann hefja sundið kl: 8:00.
Sigurgeir er enginn nýgræðingur þegar kemur að sjósundi en árið 2022 fylgdu Barnaheill honum til Vestmannaeyja þegar hann synti þaðan og yfir til Landeyjarsanda, um 12 kílómetra leið.
„Undirbúningurinn hefur gengið vel, ég er í toppformi og bíð núna bara spenntur eftir því að geta stungið mér til sunds,“ segir Sigurgeir og bæti við að hann hvetji fólk til að sýna sér stuðning með því að styrkja söfnunina.
„Við hjá Barnaheillum komum víða við í starfi okkar og meðal annars bregðumst við mannúðarkrísum, veitum neyðaraðstoð og leggjum ríka áherslu á að raddir barna heyrist og réttindi þeirra séu virt. Við vitum öll að neyðin er mikil á Gaza og erum við því afar þakklát Sigurgeiri fyrir að leggja á sig þetta sund og styrkja börn á átakasvæðum í leiðinni,“ segir Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.
Hér getur þú styrkt neyðarsöfnun Barnaheilla til stuðnings börnum á Gaza.